Fengu 323 krónur á kílóið af túnfiskinum

Deila:

Túnfiskurinn, sem Ísey EA kom með að landi í gær var seldur á fiskmarkaði Grindavíkur á aðeins 323 krónur kílóið. Á sama tíma var meðalverð á óslægðum þorski á sama markaði um 495 krónur á kílóið. Fyrir 211 kílóa túnfisk fengust því aðeins rúma 64.000 krónur. Atlantic Seafood keypti fiskinn.

Grétari Þorgeirssyni, skipstjóra á Ísey, fannst það ansi lágt verð fyrir fisk, sem seldur er dýrum dómum á fiskmörkuðum víða um heim. „Það leit meira segja svo út um tíma að hann yrði ekki seldur, en uppboðið hófst í 1.000 krónum á kílóið og síðan talið niður. Þegar við lönduðum fiskinum var hitinn í honum um 4 gráður og þeir á fiskmarkaðnum höfðu hann í krapa um nóttina og náðu hitastiginu niður í núllið, þannig að meðferðin á honum var í fínu lagi. Fiskikóngurinn sagði mér að hann væri að kaupa 5 kílóa frosinn túnfiskklump á 2.500 krónur kílóið. Ef kaupendurnir skera fiskinn niður í svona 5 kílóa bita, fá þeir alla vega 2.500 krónur fyrir kílóið. Kannski fer þetta í sushi eða eitthvað annað, mér kemur það ekkert við. Svona fór um sjóferð þá. Það snæðir þetta einhver hér á landi, vonandi með bestu lyst.“

Báturinn Ísey EA 40 er skráður í Hrísey hjá Hrísey Seafood, sem er dóttur fyrirtæki Iraco í Hafnarfirði.

Deila: