Barði landar kolmunna

Deila:

Barði NK hélt til kolmunnaveiða frá Neskaupstað sl. föstudag. Vegna veðurs kom hann inn í fyrrinótt með 750 tonn. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Þorkel Pétursson skipstjóra og spurði fyrst hvar veitt hefði verið.

„Við veiddum norðarlega í Rósagarðinum. Við vorum komnir í fisk á Hvalbakshallinu og það var töluvert að sjá. Við tókum einungis tvö hol. Í fyrra holinu var dregið í þrjá tíma og aflinn var 250 tonn. Í síðara holinu drógum við í níu tíma og þá fengust rétt tæp 500 tonn. Aflinn var tekinn á 240 – 300 metra dýpi. Það var einungis dregið í myrkrinu vegna þess að fiskurinn dreifir sér þegar birtir. Fiskurinn er töluvert blandaður en ég held að þetta sé alveg fínasta hráefni fyrir vinnsluna. Við munum landa aflanum í fyrramálið og síðan verður haldið rakleiðis út á ný enda á þá veðurofsinn að vera algjörlega genginn niður. Mér líst afskaplega vel á þessa byrjun og það virtist vera fiskur þarna á stóru svæði. Ég er ekki frá því að þarna sé meira að sjá en þegar við hófum þarna veiðar í byrjun október í fyrra,“ segir Þorkell.

 

Deila: