Blængur með 300 milljóna túr

Deila:

                         
Frystitogarinn Blængur NK landaði í Hafnarfirði í gær. Togarinn gat ekki landað í heimahöfn í Neskaupstað vegna þess að ekki var pláss fyrir aflann í frystigeymslum enda síldarvertíð í hámarki. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Sigurð Hörð Kristjánsson skipstjóra og spurði hvernig veiðiferðin hefði gengið.

„Hún gekk alveg þokkalega. Þetta var dálítill skraptúr en við vorum rúmar þrjár vikur að veiðum. Haldið var til veiða 4. september og komið í land 29. september. Við hófum veiðar fyrir austan land en vorum nánast allan tímann á Vestfjarðamiðum. Aflinn var rúm 560 tonn og verðmætin um 300 milljónir. Þetta var blandaður afli, mest ufsi, þorskur og grálúða. Það fór mikill tími í að forðast gullkarfa en það er búið að skerða karfakvótann þannig að allir eru í vandræðum. Við munum halda til veiða á ný strax í kvöld,“ segir Sigurður Hörður.
Frystitogarinn Blængur NK. Ljósm. Atli Þorsteinsson

 

Deila: