Allur flotinn að leita að ufsa

Deila:

,,Við erum staddir hér á Eldeyjarboðanum eða nánar tiltekið á Fjallasvæðinu og erum að leita að ufsa eins og allur togaraflotinn. Það er ufsi hérna en því miður einnig gullkarfi og það torveldar allar veiðar,” segir Ævar Jóhannsson, skipstjóri á frystitogaranum Örfirisey RE í samtali á heimasíðu Brims.

Að sögn Ævars verður veiðiferðin styttri en oft áður en skipið á að koma til hafnar í Reykjavík 7. október nk.

,,Við byrjuðum veiðiferðina með veiðum á Halanum. Það er ufsi þar og mikið af gullkarfa. Maður þarf að gæta sín sérstaklega að veiða ekki of mikið af karfa með ufsanum. Þegar við vorum komnir með 20% af karfaskammtinum fyrir túrinn var ekki um annað að ræða en að reyna fyrir sér annars staðar,” segir Ævar en hann segir að leiðin hafi legið í kantinn vestur af Vestfjörðum.

,,Við vorum á Strandagrunni og Barðagrunni, svo ég nefni eitthvað, og það var fínasta ýsuveiði á ákveðnum svæðum. Við erum ekki mikið á þorskveiðum en það sem mátti veiða í túrnum veiddist fljótt og vel.”

Að sögn Ævars hefur veður verið alveg skaplegt í túrnum ef frá er skilið fárviðrið sl. sunnudag. Við því var brugðist með því að leita vars undir Stigahlíð í Ísafjarðardjúpi í nokkra tíma. En nú er Örfirisey komin suður og líkt og fyrr er leitað að ufsa.

,,Það er reytingur af ufsa á Fjöllunum og málið snýst um að veiða hann en forðast gullkarfann. Ég er að bræða það með mér hvort skynsamlegt væri að nota síðustu dagana og reyna við djúpkarfa í Skerjadjúpinu. Það ætti að skýrast fljótlega,” segir Ævar Jóhannsson.

 

Deila: