Særif SH svipt veiðileyfi

Deila:

Með ákvörðun Fiskistofu, dags. 12. júlí 2022, var fiskiskipið Særif SH-702 (2822) svipt leyfi til veiða í atvinnuskyni í 2 vikur vegna vanskila og ónákvæmrar skráningar á aflaupplýsingum í andstöðu við 2. mgr. 4. gr. sbr. 7. gr. reglugerðar um skráningu og rafræn skil aflaupplýsinga nr. 298/2020. Veiðileyfissviptingin tók gildi frá og með 1. september 2022 og til og með 14. september. Ákvörðunin hefur ítrekunaráhrif í tvö ár frá og með dagsetningu hennar skv. 19. gr. laga nr. 57/1996. 

Fiskistofu bárust ekki rafrænar sendingar aflaupplýsinga á tilskildum tíma frá umræddu fiskiskipi fyrir landanir í þrígang í janúar 2022. Jafnframt hafi umtalsverður munur verið á uppgefnu aflamagni og raunaflamagni í annarri veiðiferð í lok sama mánaðar. Uppgefinn afli skv rafrænum aflaupplýsingum frá skipstjóra umræddan dag voru 3.127 kg en raunþyngd hans vóg 19.785 kg. Raunafli var því rúmlega fimmfaldur af uppgefnum heildar afla og munurinn því verulegur. Við meðferð málsins taldist sannað að skipstjóri sinnti ekki skyldu til aflaskráningar í afladagbók samræmi við reglugerð um skráningu og rafræn skil aflaupplýsinga nr. 298/2020. Viðurlög í málinu voru ákveðin með hliðsjón af ítrekunaráhrifum fyrri áminningar, frá 11. janúar 2022, vegna samkynja brots. Í aðdraganda áminningar hafði málsaðila verið leiðbeint um þá misbresti sem höfðu áður verið á skilum rafrænnar afladagbókar og honum leiðbeint um þá skyldu sem hvílir á skipstjóra á grundvelli fyrrnefndrar reglugerðar.

 

Deila: