Góð afkoma fyrirtækja í sjávarútvegi

Deila:

Heildartekjur í sjávarútvegi námu 309 milljörðum króna í fyrra, sem er aukning um 25 milljarða króna frá árinu á undan. Hagnaður var 65 milljarðar króna. Arðgreiðslur í sjávarútvegi í fyrra námu 18,5 milljarði króna og lækka frá fyrra ári. Þetta má lesa úr samantekt Deloitte sem kynnt var á hinum árlega Sjávarútvegsdegi, sem var í dag, 25. október. vb.is segir frá.

Tæplega helmingur af þessum arðgreiðslum tilheyra skráðum útgerðarfélögunum Síldarvinnslunni (SVN) og Brimi. SVN færði hlutabréf í Sjóvá til hluthafa í aðdraganda skráningar fyrrgreinda félagsins á markað í maí 2021. Verðmæti þeirrar arðsúthlutunar var um 7 milljarðar króna. Þá voru arðgreiðslur Brims til hluthafa sinna um 2 milljarðar. Arðgreiðslur úr öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum en þessum tveimur voru því í heild um 9,5 milljarðar króna.

Skuldir sjávarútvegsfyrirtækja lækka frá fyrra ári og eru nú um 457 milljarðar króna. Bókfært eigið fé nemur 353 milljörðum króna.

22 milljarðar í opinber gjöld

Bein opinber gjöld sjávarútvegsfyrirtækja námu í fyrra um 22,3 milljörðum króna. Er þar átt við samtölu tekjuskatts, tryggingagjalds og veiðigjalds. Fjárfestingar á árinu voru á svipuðu róli og undanfarin ár, en þær námu 25 milljörðum króna.

„Athygli vekur að á liðnum 5 árum hafa fjármunir sem samsvara tæplega 60% hagnaðar verið veitt til fjárfestinga. Sýnir þetta glögglega mikilvæga vegferð sjávarútvegs til áframhaldandi verðmætasköpunar á komandi árum,“ segir í tilkynningu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) sem stóð að baki Sjávarútvegsdegsins ásamt Deloitte og Samtökum atvinnulífsins.

Tap af fiskeldi en tekjur aldrei meiri

Tekjur af fiskeldi hafa aukist jafnt og þétt á undanförnum árum og hafa aldrei verið eins miklar og í fyrra, eða um 48 milljarðar króna. Hins vegar varð tap af rekstrinum að fjárhæð 700 milljónir króna.

„Skýrist sú niðurstaða að verulegu leyti af erfiðum umhverfisaðstæðum, skakkaföllum vegna veirusýkingar í eldi á Austfjörðum og áhrifum heimsfaraldurs. Áskoranir eru því sannanlega til staðar, sem hamlað geta vexti greinarinnar og verðmætasköpun.“

Launþegum í fiskeldi hélt áfram að fjölga, en í fyrra voru þeir 597 eða 14% fleiri en árið áður.

Styður hagvöxt og góð lífskjör

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS segir að bæði sjávarútvegur og fiskeldi megi vel við útkomuna una, enda voru töluverðar áskoranir í rekstri og á mörkuðum.

„Uppgjör Sjávarútvegsdagsins sýnir enn og aftur, að við Íslendingar erum í fararbroddi þegar kemur að sjálfbærri nýtingu auðlinda sjávar. Sjávarútvegur og fiskeldi leggja mikilvæg lóð á vogarskálar til að tryggja hér heilbrigðan hagvöxt og góð lífskjör. Verkefnið er því að treysta þessar stoðir enn frekar, enda er varanlegur útflutningsvöxtur grundvöllur sjálfbærs hagvaxtar og lífskjarabóta.

Verðmætin verða ekki til af sjálfu sér. Umgjörðin sem stjórnvöld búa þessum atvinnugreinum þarf að styðja við þær. Öruggur grundvöllur heima er grunnforsenda þess að staðið sé traustum fótum í síbreytilegum markaðsaðstæðum að heiman.“

 

Deila: