Brim og Fisktækniskólinn skrifa undir samstarfsyfirlýsingu um eflingu menntunar á sviði sjávarútvegs

Deila:

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims og Ólafur Jón Arnbjörnsson, skólameistari Fisktækniskóla Íslands undirrituðu viljayfirlýsingu um samstarf í lok málstofu um menntamál á Sjávarútvegsráðstefnunni 11. nóvember sl.

Samstarfsyfirlýsingin fjallar um eflingu menntunar á sviði sjávarútvegs. Verkefnið er tvíþætt, annars vegar að auka áhuga ungs fólks á Íslandi á námi og störfum í sjávarútvegi og hins vegar að auka hæfni, símenntun og starfsþróun starfsfólks Brims.

Til að vinna að þessu verkefni verður skipuð samstarfsnefnd tveggja fulltrúa frá Fisktækniskóla Íslands og eins fulltrúa frá Brimi auk þess sem fagaðilar frá fyrirtækinu verða kallaðir til eftir þörfum.  Hlutverk samstarfsnefndarinnar er að marka stefnu, skilgreina verkefni og hafa umsjón með samstarfi aðilanna.

Brim hefur einnig gert samstarfssamning við LearnCove um þróun hugbúnaðar sem nýtist við þjálfun og fræðslu starfsmanna Brims.

Frá vinstri eru fyrst fulltrúar Fisktæknskólans, Ragnheiður Eyjólfsdóttir, áfanga og gæðastjóri. Ásdís V. Pálsdóttir, verkefnastjóri, Ólafur Jón Arnbjörnsson, skólastjóri, Klemenz Sæmundsson,kennari, Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims og Pálmi Hafþór Ingólfsson, verkefnastjóri fræðslu og heilsueflingar hjá Brimi.

 

Deila: