Rígvænn þorskur á Dohrnbanka

Deila:

,,Það var ákveðið að fara grynnra, nánar til tekið í Víkurálinn, og leita þar að ufsatorfunni. Þetta gerum við bara til að þorskurinn, sem við ætlum að veiða í lok veiðiferðarinnar, verði sem ferskastur þegar hann er unninn. Helga María AK er lögð af stað og við fylgjum í kjölfarið.”

Þetta sagði Jóhannes Ellert Eiríksson (Elli), skipstjóri á ísfisktogaranum Viðey RE í síðustu viku, en Viðey var þá stödd á Dohrnbankanum milli Íslands og Grænlands er tal náðist af Ella.

Að sögn Ella er þetta þriðji túr Viðeyjar á Dohrnbankann á þessum vetri.

,,Við fórum einu sinni hingað í nóvember og svo var ég hér með skipið í síðasta túr. Þá fengum við góðan afla, um 180 tonn, og uppistaðan af aflanum var rígvænn þorskur eða fimm til sex kíló að uppistöðu. Þeim afla var landað í Grundarfirði og þaðan var honum ekið til vinnslu í Reykjavík,” segir Elli en hann upplýsir að skipum hafi fjölgað til muna á Dohrnbankanum í kjölfar frétta af góðum aflabrögðum.

,,Það er út af fyrir sig ekki slæmt að skipunum fjölgi. Það er rými fyrir alla.”

Elli segist ekki smeykur við að reyna við ufsann í Víkurálnum þó að þetta svæði hafi í seinni tíð aðallega verið þekkt fyrir mikinn og góðan gullkarfaafla.

,,Við megum sem betur fer veiða dálítið af gullkarfa í þessum túr og það gerir okkur kleift að reyna við ufsann í Víkurálnum,” segir Elli en hann segir að lítið verði vart við aðrar tegundir en þorsk á Dohrnbankanum. Hvergi hafi t.d. lóðað á loðnu og hið sama hafi verið uppi á teningnum í síðasta túr.

 

Deila: