Fjölmennasti útskriftarhópur Fisktækniskólans

Deila:

Fimmtudaginn 15. desember fór fram útskrift frá Fisktækniskóla Íslands.  Alls luku 56 nemendur prófi á haustönn – og er það fjölmennasti útskriftahópur skólans til þessa. Í Vélstjórn luku 13 manns námi (750Kw), 24 luku tveggja ára almennu grunnnámi Fisktækna.  Einn lauk námi í Veiðafæratækni, 12 luku Gæðastjórn og sex luku Fiskeldistækni – en tvær síðastnefndu brautirnar hafa námslok á þriðja hæfniþrepi og eru sérhæfing – að loknu grunnnámi alls 180 námseiningar.

Í ávarpi skólameistara kom fram að útskriftin væri sú tuttugasta í röðinni frá því skólinn fékk viðurkenningu sem framhaldsskóli og að Fisktækniskólinn ætti formlega tíu ára starfsafmæli sem viðurkenndur einkaskóli á framhaldsskólastigi. Saga skólans er þó nokkuð eldri, en 15 ár eru frá stofnun skólans, – en skólinn hóf í raun starfsemi á undanþágu einum þremur árum fyrr – eða 2009.

Alls stunduðu um 140 nemendur nám á í skólanum á haustönn og kennt var á 5 staðfestum námsbrautum.  Sú nýjung átti sér stað við þessa útskrift, að 18 nemendur sem luku námi í Fisktækni, var kennt á þeirra móðurmáli – pólsku.  „Þar sem stór hluti nemenda okkar er starfandi í veiðum, vinnslu og fiskeldi, erum við vön að kenna á erlendum tungumálum – og þá við hlið íslenskunnar, en þetta er í fyrsta skipti, sem við í raun snúum þessu við og íslenskan kemur inn með í kennslunni. Þetta er í raun ný nálgun í kennslu og aðlögun fólks með erlendan bakgrunn. Raunin sú að nemendur læra íslenskuna einnig með þessum hætti – og svo búum við svo vel að hafa fagkennara sem talar bæði málin mjög vel“.

Mikil aðsókn er í nám á vorönn 2023.  Alls eru 24 nemendur í veiðarfæratækni (netagerð), en auk þess eru Vinnslutækni, Gæðastjórn og Fiskeldistækni mjög vinsælar brautir og óðum að fyllast í það nám. Skýringin á þessum áhuga er augljós – að mati Ólafs, en mikill vöxtur er í fiskeldi – bæði í sjó og á landi – og þá ekki síst hér á suðvesturhorninu sem kallar á aukið vinnuafl – og ný tækni og vinnuaðferðir beinlínis kalli á fólk með sérmenntun.

Útskriftanemum og skólanum barst fjöldi kveðja í tilefni dagsins, meðal annars frá ráðherra matvæla, Svandísi Svarsdóttur. Lárus Pálmason, netagerðameistari og fyrrverandi kennari færði skólanum málverk og Bæjarstjóri Grindavíkur, Fannar Jónasson, ávarpaði hópinn og færði skólanum fyrir hönd bæjarins myndarlega peningagjöf í tilefni afmælisins, að upphæð einni milljón – til búnaðarkaupa.  Að sögn skólameistara stefnir skólinn á kaup og þróun herma á hinum ýmsu sviðum veiða, vinnslu og fiskeldis, en skólinn hefur verið mjög framarlega í þróun rafrænna lausna og notkunar nýrrar tækni og sýndarveruleika í kennslu.

Að lokinni athöfn þakkaði skólameistari stjórn og starfsfólki skólans fyrir samstarfið á haustönn og sleit skóla.

 

Deila: