Kaupa 3.500 appelsínugul fiskikör

Deila:

Á sjávarútvegssýningunni Seafood Processing Global í Brussel á dögunum var skrifað undir samning um kaup Síldarvinnslunnar á 3.500 fiskikörum frá Sæplasti. Körin verða notuð um borð í hinum nýju skipum Bergs-Hugins, Vestmannaey VE og Bergey VE, sem nú eru í smíðum í Noregi. Samninginn undirrituðu Sigurður Steinn Einarsson fyrir hönd Síldarvinnslunnar, Arnar Richardsson fyrir hönd Bergs-Hugins og Sævaldur Jens Gunnarsson fyrir hönd Sæplasts. Byrjað var að framleiða körin á Dalvík í aprílmánuði sl. og gert er ráð fyrir að framleiðslu ljúki í nóvember næstkomandi. Samningurinn hljóðar upp á rúmlega eitt hundrað milljónir króna.

Þessi nýju kör verða 460 lítra en eldri kör eru 660 lítra. Ástæða þess að minni kör verða fyrir valinu er einkum tvíþætt. Í fyrsta lagi eru gæði aflans höfð í huga og í öðru lagi er auðveldara að vinna um borð í skipunum með minni kör.

 

Fyrir undirritun samningsins í Brussel. Talið frá vinstri: Arnar Richardsson, Sigurður Steinn Einarsson og Sævaldur Jens Gunnarsson.

„Litur karanna vekur nokkra athygli en hann er appelsínugulur eða orange. Sæplast hafði áður framleitt 750 kör af minni gerðinni fyrir Gullver NS í þessum lit og ákveðið hefur verið að samræma litinn á körum í eigu Síldarvinnslunnar og dótturfélaga. Sigurður Steinn Einarsson var spurður hvers vegna þessi litur hefði orðið fyrir valinu. „Við vildum finna lit sem gerði það að verkum að okkar kör skæru sig úr. Það vill gerast að okkar kör blandist við kör í annarra eigu og alltof algengt er að aðilar taki kör annarra til eigin nota. Þessi nýi litur mun vonandi gera okkur þægilegra að finna kör í okkar eigu aftur. Einnig höfum við bætt við sérmerkingu á hlið karanna sem segir til um hvert skal skila körum ef þau lenda út fyrir okkar flutningskerfi. Við höfum unnið að vitundarvakningu varðandi það hvernig umgangast á fiskikör í góðu samstarfi við dótturfélag Sæplasts, iTub, og er það sameiginlegt verkefni sjávarútvegsfyrirtækja að tryggja góða meðferð á þessum umbúðum aflans.“ segir Sigurður Steinn,“ í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

 

 

Deila: