SideWind og Alvar vinna til verðlauna

Deila:

Í tilefni opnunar Íslensku sjávarútvegssýningarinnar veitti Íslenski sjávarklasinn tveim nýsköpunarfyrirtækjum sérstök verðlaun fyrir framúrskarandi hugmyndir og tækni sem dregur úr mengun og bætir umhverfið.

Fyrst er til að taka nýsköpunarfyrirtækið SideWind sem stefnir að framleiðslu vindtúrbína sem komið er fyrir í opnum gámum. Vindmyllugámarnir nýta hliðarvind sem annars færi til spillis við framleiðslu rafmagns. SideWind telur að með aðferðinni megi framleiða 5 til 10 prósent af orkuþörf flutningaskipa. Stofnendur fyrirtækisins eru María Kristín Þrastardóttir og Óskar Svavarsson.

Alvar er nýsköpunarfyrirtæki sem hefur þróað lausnir til sótthreinsunar fyrir fiskiskip og allar gerðir fiskvinnslu þar sem hágæða vinnsla fer fram. Þokukerfi fyrirtækisins er þegar notað víða um heim með góðum árangri og niðurstöður rannsókna sýna að með þeirri aðferð sem Alvar beitir með sínum kerfum náist að draga verulega úr bakteríumyndun í vinnslum og afurðum. Þessi aðferð fyrirtækisins stuðlar einnig að 80- 90% minnkun á notkun vatns og kemískra sótthreinsiefna við sótthreinsun. Stofnandi Alvars er Ragnar Ólafsson.

 

Deila: