Vill flytja þorskveiðiheimildir frá uppsjávarveiðiskipum til strandveiða

Deila:

Þingmaður Vinstri grænna, Lilja Rafney Magnúsdóttir, hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um strandveiðar. Samkvæmt frumvarpinu vill hún að þorskveiðiheimildir verði færðar frá uppsjávarveiðiskipum til strandveiða til að tryggja 48 óskerta veiðidaga á hverju sumri. Þorskveiðiheimildir á þessu fiskveiðiári voru skornar niður um 13%. Það þýðir að þorskafli til strandveiða á fiskveiðiárinu skerðist eins og hjá öðrum útgerðum og verður því 8.500 tonn að hámarki samkvæmt ákvörðun sjávarútvegsráðherra. Þetta sætta strandveiðimenn sig ekki við.

Frumvarp Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur er svo hljóðandi:

1. gr.

    1. málsl. 3. mgr. 8. gr. laganna orðast svo: Aflamark veiðiskips á hverju fiskveiðiári, veiðitímabili eða vertíð ræðst af leyfðum heildarafla í viðkomandi tegund og hlutdeild skipsins í þeim heildarafla skv. 2. mgr., að frádregnu hlutfalli af magni hverrar tegundar sem skal vera 10,3% í uppsjávarfiski og 5,3% í öðrum tegundum og aflamagni skv. 10. gr. b.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ráðherra skal tryggja 48 daga ár hvert til strandveiða, 12 daga í mánuði tímabilið maí– ágúst.
    Hafi ráðherra fullnýtt heimildir innan 5,3% kerfisins fyrir árið 2022, sbr. 3. mgr. 8. gr. laganna, er ráðherra heimilt að flytja til strandveiða allt að 30% af þorskveiðiheimildum almenna byggðakvótakerfisins, sbr. 10. gr. laganna, auk skel- og rækjuuppbóta fiskveiðiársins 2022/2023, sbr. 11. gr. laganna.
    Ráðherra skal tryggja að flutningsheimild, sbr. 2. mgr., skerði ekki veiðiheimildir dagróðrabáta, sem eru styttri en 15 metrar að mestu lengd og minni en 30 brúttótonn, innan þessara flokka.

Í greinargerð með frumvarpinu segir svo:

 „Frumvarp þetta er endurflutt. Nýmæli er þó frá frumvarpi sama efnis sem lagt var fram á 151. löggjafarþingi 2020–2021 (855. mál) að lagt er til að heimildir sem dregnar eru frá leyfilegum heildarafla hverrar tegundar verði aðskildar. Frádráttur á úthlutuðu aflamarki til uppsjávarskipa verði 10,3% í stað 5,3% eins og verið hefur. Þetta er gert til að tryggja enn frekar aðgerðir til eflingar sjávarbyggða, þ.m.t. línuívilnun og strandveiðar og útgerð dagróðrabáta.
    Frumvarpi þessu er ætlað að tryggja strandveiðar í 48 veiðidaga frá og með árinu 2022 með auknum sveigjanleika í viðmiðunarafla til strandveiða. Er þessari aðgerð fyrst og fremst ætlað að efla sjávarbyggðir um land allt, auka framboð á fiski frá dagróðrabátum og vinna gegn atvinnuleysi í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru sem hefur bitnað á vinnandi fólki hringinn í kringum landið.“

Og ennfremur:

„Þegar litið er til strandveiða undanfarinna ára er ólíklegt að 8.500 tonn tryggi veiðar til ágústloka. Líklegt er að kvótinn dugi aðeins til 20. júlí.
    Samkvæmt tölum síðastliðinna fjögurra ára hefur bátum á strandveiðum fjölgað. Margar ástæður liggja þar að baki, m.a. aukið atvinnuleysi meðal landsmanna og samþjöppun aflaheimilda sem hefur aukið eftirspurn eftir veiðiheimildum. Auk þess hefur störfum við fiskveiðar fækkað.“

Deila: