Minna flutt utan frá Færeyjum

Deila:

Talsverður samdráttur er í útflutningi af sjávarafurðum frá Færeyjum fyrstu 11 mánuði síðasta árs miðað við sama tíma árið áður. Útflutningsverðmætið er nú 13% lægra en árið áður og magnið hefur dregist saman um 9%

Samdrátturinn er mestur í útflutningi á laxi og uppsjávarfiski. Verðmæti útfluttra afurða úr síld og makríl hefur minnkað um 10,6 milljarða og í eldisfiskinum er samdrátturinn um 11 milljarðar íslenskra króna.

Á hinn bóginn hefur útflutningur á afurðum úr þorski og ýsu vaxið en dregist saman í ufsa.

Heildarverðmæti útflutningsins á umræddu tímabili er tæplega 123 milljarðar íslenskra króna og skilar laxeldið  55 milljörðum af því þrátt fyrir samdrátt um 17%. Verðmæti útfluttra afurða úr þorski, ufsa og ýsu var 22,5 milljarðar, sem er 12% vöxtur og uppsjávarfiskurinn skilaði örlitlu minna, en þar var samdrátturinn 33%.

Útfluttar afurðir námu alls 417.000 tonnum og þar er uppsjávarfiskurinn fyrirferðarmestur með 173.000 tonn, þrátt fyrir samdrátt um 45.000 tonn. Af laxi fóru utan 52.000 tonn er sem samdráttur um 10%. Þá fóru utan 39.000 tonn af þorski, ýsu og ufsa, sem er vöxtur um 3%.

 

Deila: