Búnaður frá Naust Marine í nýju hafrannsóknaskipi

557
Deila:

Samið hefur verið um kaup á vindubúnaði frá Naust Marine í nýtt rannsóknarskip fyrir Hafrannsóknarstofnun sem nú er í smíðum hjá ARMON skipasmíðastöðinni í Vigo á Spáni. Áætlað er að skipið komi til landsins haustið 2024.

Í frétt frá Naust Marine segir að fyrirtækið hafi í yfir 30 ár einblínt á umhverfisvænar lausnir sem stuðli að því að draga úr eldsneytisnotkun, lágmarka hávaða og titring sem leiði til betri skilvirkni. Því sé það mikill heiður fyrir fyrirtækið að búnaður þess hafi verið valinn í nýja hafrannsóknaskipið en allar vindur og annar þilfarsbúnaður verður knúinn rafmagni.

Meðal þess búnaðar sem um er að ræða frá Naust Marine eru togvindur, gilsa- og grandaravindur, rannsóknarvindur, netavindur, ankerisvindur ásamt öðrum hjálparvindum, kranar, gálgar og blakkir ásamt stjórnbúnaði.
Nýja hafrannsóknaskipið er hönnun frá Skipasýn. Skipið verður 70m að lengd og útbúið allra nýjustu tækni.  Það kemur til með að leysa hið rúmlega 50 ára gama rannsóknarskip Bjarna Sæmundsson RE af hólmi.  Við hönnun skipsins var m.a. lögð áhersla á að spara orku og draga úr umhverfisáhrifum og notkun jarðefnaeldsneytis.

 

Deila: