Skora á ráðherra að endurskoða ákvörðun um flutning aflaheimilda milli ára

Deila:

Landssamband smábátaeigenda hefur skorað  á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur að endurskoða ákvörðun sína um ákvæði er heimilar flutning aflaheimilda milli ára. Heimildin felur í sér heimild svigrúm til að flytja allt að 30% aflaheimilda milli ára, sem er tvöföldun frá því verið hefur. Heimildin gildir þó aðeins um næstu fiskveiðiáramót í haust.

Stjórn Landssambands smábátaeigenda fjallaði nýverið um ákvörðun sjávarútvegsráðherra að hækka heimild til flutnings aflaheimilda milli ára.  Í lögum um stjórn fiskveiða orðast ákvæðið þannig:

„Heimilt er að flytja allt að 15% af aflamarki hverrar botnfisktegundar“ og síðar í greininni segir:  „frá einu fiskveiðiári yfir á það næsta.  Ráðherra getur að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunar hækkað fyrrgreint hlutfall aflamarks í einstökum tegundum telji hann slíkt stuðla að betri nýtingu tegundarinnar.“

Þann 3. apríl sl. ákvað sjávarútvegsráðherra að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunar að verða við óskum SFS um að auka það hlutfall aflaheimilda sem færa má milli ára úr 15% í 30%.  Í bréfi SFS til ráðherra er ástæða beiðninnar tveggja mánaða verkfall sjómanna.

Stjórn LS hefur af þessum sökum sent frá sér eftirfarandi ályktun:

„Með útgáfu reglugerðar 276/2017 sem eykur rétt til flutnings aflamarks milli fiskveiðiára er gripið hastarlega inn í stjórnun fiskveiða.  Við öll meiriháttar inngrip í fiskveiðistjórn hefur það verið viðtekin venja að leita samráðs við helstu hagsmunaaðila.  LS harmar að það hafi ekki verið gert og væntir þess að það boði ekki stefnubreytingu, heldur hafi hér verið um mistök að ræða.

Engum blöðum er um það að fletta að verkfall um tveggja mánaða skeið hefur haft gríðarleg áhrif.  Á það ber hins vegar að líta að í lögum um stjórn fiskveiða er ekkert ákvæði sem beinlínis tekur til rekstrarstöðvana sem verða að völdum verkfalla.

Með ákvörðun ráðherra er verið að ganga erinda þeirra sem áttu í deilum við sjómenn en engu skeytt um þá sem ekki voru valdir að ófriði á vinnumarkaðinum.  Landssamband smábátaeigenda átti ekki í deilum við sjómenn og ekkert verkfall var hjá sjómönnum á smábátum.

Á síðasta fiskveiðiári veiddu smábátar um fjórðung alls þorsks og enn hærra hlutfall af ýsu.  Þá veiddu þeir um helming alls steinbíts.  Heildarafli smábáta varð um 93 þúsund tonn.  Það er því ljóst að vægi þeirra er ærið í nýtingu auðlindarinnar.

Breyting sem ráðherra hefur gert á reglugerð um stjórn fiskveiða gerir rekstrarumhverfi smábáta erfiðara.  Eigendur smábáta sáu fram á að verð á leigukvóta mundi lækka og þannig yrði komið verulega til móts við erfiða rekstrarstöðu þessa hóps.

Stjórn LS lítur það alvarlegum augum að ráðherra hafi breytt viðkomandi ákvæði og aukið heimildir til flutnings milli ára um 100%.  Þó ekki sé dregið í efa að ráðherra hafi haft þessa heimild þá er afar erfitt að sjá að hann hafi gætt jafnræðis eins og ráðherra ber að gera við svo sterkt inngrip í ákvæði laga um stjórn fiskveiða.

Hér með er skorað á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur að endurskoða ákvörðun sína um ákvæði er heimilar flutning aflaheimilda milli ára.  Ræða við alla hagsmunaaðila er málið varðar.“

Ráherra móttók ályktunina á fundi með forsvarsmönnum LS í gær.

Deila: