Vetnisskip í smíðum fyrir Samherja

Deila:

Samskip hafa samið um smíði tveggja vetnisknúinna flutningaskipa til notkunar á skemmri siglingaleiðum í Evrópu. Félagið, sem er alþjóðlegt með skrifstofur í 24 löndum, færir sig með þessu í átt að útblásturlausum skipaflutningum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.

Fram kemur að skipin muni flytja vörur milli Noregs og Hollands og að þau verði meðal fyrstu gámaflutningaskipa heims á skemmri flutningsleiðum sem ganga á grænu vetni án mengandi útblásturs. Þegar keyrt er á vetni er ætlað að sparist útblástur sem nemi um 25.000 tonnum CO2 hjá hvoru skipi. Þau verða einnig útblásturslaus í viðkomuhöfn með notkun grænnar landorku.

„Smíði skipanna er hluti af brautryðjendaverkefninu Seashuttle þar sem Samskip hafa verið í fararbroddi. Hönnun skipanna er unnin í samstarfi við Naval Dynamics í Noregi, en samið hefur verið um smíðina við leiðandi skipasmíðastöð á Indlandi, Cochin Shipyard Ltd,” að því er segir í tilkynningunni.

Haft er eftir forstjóranum Birki Hólm Guðnasyni að hönnun og smíði vetnisgámaskipanna sé stórt skref í átt að sjálfbærnimarkmiðum Samskipa og undirstrikar skuldbindingu okkar í þeim efnum. „Við erum afar stolt af þátttökunni í þessu verkefni, enda er baráttan við loftslagsbreytingar einhver sú mikilvægasta sem allar þjóðir standa frammi fyrir. Samskip starfa um heim allan og leggja sig fram um að vera fremst í flokki við að draga úr umhverfisáhrifum í flutningastarfsemi.“

Deila: