Fiskistofa skoðar leiðir til að sporna við umframafla á strandveiðum

Deila:

Fiskistofa skoðar nú hvort hægt sé, án sérstakrar lagaheimildar, að sporna við ítrekuðum brotum á reglu um leyfilegan hámarksdagsafla á strandveiðum. Eins og Auðlindin greindi frá í gær eru mörg dæmi um að bátar landi að jafnaði meira en 50 kílóum umfram þau 774 kíló sem heimilt er að koma með að landi.

Viðurlögin við þessu eru þau að útgerðirnar eru sektaðar fyrir fiskinn að upphæð sem samsvarar meðalverði á markaði þess dags fyrir umframaflann. Bent hefur verið á að þeir sem eru í stórum og verðmætum fiski geti þannig hagnast svolítið á athæfinu. Ef meðalverð á markaði er 400 krónur en meðalverð á stórfiskinum 500 krónur getur sá sem veiðir umfram leyfilegan hámarksafla haft 100 krónur pr. kíló út úr bröltinu. Umframaflinn dregst, eins og annar afli, frá heildaraflamarki strandveiða. Menn sem ítrekað landa umframafla gera það því á kostnað hinna.

Þessi álagning á útgerðirnar er lögð á við lok hvers mánaðar á strandveiðum. Í svari Fiskistofu við fyrirspurn Auðlindarinnar segir að ekki sé sérstök lagaheimild til að meina aðilum að fara út til veiða ef þeir eru ítrekað með umframafla. Fiskistofa sé að skoða hvort hægt sé að bregðast við alvarlegum og endurteknum brotum á reglu um leyfilegan hámarksafla á þann hátt að athæfið hafi ekki „neikvæðar afleiðingar fyrir aðra sem eru á strandveiðum”.

Í svarinu segir að skoðunin standi yfir en niðurstaða liggi ekki fyrir.

Tveimur umsóknum hafnað

Í aðdraganda strandveiðitímabilsins áréttaði Fiskistofa reglur um strandveiðar og breytti umsóknarferlinu. Þar sagði meðal annars:

  • Fiskistofu er einungis heimilt að veita hverri útgerð eða eiganda skips leyfi til strandveiða fyrir eitt skip.

  • Eigandi fiskiskips skal vera lögskráður á skipið. Þegar fiskiskip er í eigu lögaðila er fullnægjandi ef einn eigenda lögaðilans er lögskráður á skipið.

Auðlindin spurði Fiskistofu hversu mörgum umsóknum um strandveiðileyfi hafi verið synjað. Í svari stofnunarinnar kemur fram að tveimur hafi verið synjað en að Fiskistofu sé kunnugt um að aðilar sem hafi verið með fleiri en einn bát í fyrra séu nú aðeins með einn bát.

Deila: