Skorar á stjórnvöld að taka strandveiðar út úr heildarkvóta

Deila:

„Með vísan til þess sem sagði í skýrslu Tuma [Tómasson fiskifræðings og skólastjóra sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna] frá 2002 og í ljósi reynslunnar síðan tel ég einsýnt að engar þekkingarlegar forsendur voru og eru enn síður í dag fyrir því að setja það magn sem líklega næst með strandveiðum í heildarkvóta. Miðað við þann fjölda báta sem stundar þessar veiðar og breytileika í gæftum og aflabrögðum er afar ólíklegt að heildarafli fari yfir 15.000 tonn. Það er aðeins brot af þeim skekkjumörkum og “leiðréttingum” sem augljóslega eru í árlegri ráðgjöf Hafró. Að halda öðru fram er ekkert annað en blekking eða afneitun á þeirri ófullkomnu og umdeildu þekkingu sem ráðgjöfin byggist á. Því er hér með skorað á stjórnvöld og Alþingi að taka strandveiðarnar út úr heildarkvóta enda vita allir sem vilja vita að handfæraveiðar geta aldrei gengið nærri nokkrum stofni.“

Þetta skrifar Magnús Jónsson veðurfræðingur og formaður Drangeyjar- smábátafélags Skagafjarðar í aðsendri grein á Vísi. Magnús rekur þar að matvælaráðherra hafi gefið yfirlýsingar um að verkefnið Auðlindin okkar myndi leggja fram tillögur til að stuðla að samfélagssátt um umgjörð sjávarútvegsins. Hingað til hafi ráðherra ekki náð miklum árangri í þá áttina. „Þvert á móti hefur henni tekist að skapa úlfúð og deilur meðal smábátasjómann um flest þau mál sem hún hefur lagt fram. Nægir þar að nefna frumvarp um veiðistjórn grásleppu og frumvarp um svokallaða aflvísa þar sem auka á togveiðiheimildir í nafni umhverfisverndar upp í fjörur víða um land. Síðast en ekki síst lagði ráðherra nýlega fram frumvarp um svæðaskiptingu strandveiða, þar sem landshlutum, útgerðar­stöðum umhverfis landið sem og útgerðum smábáta er att saman með því að hverfa til fyrirkomulags við strand­veiðar sem var við líði fyrir 2018 og flestir voru sammála um að væri óhagkvæmt,og hættulegt,“ skrifar Magnús.

Atvinnuveganefnd er með umrætt frumvarp á borði sínu síðan í mars, eins og Auðlindin hefur fjallað um. Þar virðist hver höndin uppi á móti annarri en markmið frumvarps ráðherra var að auka jafnræði í veiðunum á milli landshluta. Á það geta ekki allir sæst.

Magnús er einn þeirra sem er á móti frumvarpinu og segir að ráðherra vilji fremja skemmdarverk á því fyrirkomulagi strandveiða sem góð sátt hafi ríkt um. Hann vísar þar til 48 daga kerfisins sem lögfest var 2018. „En því miður var í lögin settur fyrirvari um kvóta á heildarafla alls flotans og stöðvun­arskyldu Fiskistofu á veiðum, færi heildarafli yfir tiltekið magn. Magn sem sagt er ákveðið í nafni vísinda en sem í reynd hefur sáralítið með náttúruvísindi að gera eins og ég hef lært þau. Vísindi sem að allmiklu leyti byggist á tilgátum og tölfræði sem fáir sem koma nálægt fiskveiðum hafa trú á. Er því rétt að skoða vísindalegar forsendur fyrir heildarkvóta á strand­veiðar. “

Greinina má í heild lesa hér.

Deila: