Skipstjórnarmenn styrkja Ölduna

Deila:

Félag skipstjórnarmanna og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) lýsa yfir ánægju sinni með nýsköpun og þróun á öryggisstjórnunarkerfinu Öldu. Kerfið hefur þann tilganga að nútímavæða öryggisstjórnun til sjós með stafrænum lausnum. Jafnframt er tilgangurinn að einfalda allt utanumhald skipstjórnenda með því að samræma skipulag og framkvæmd öryggismála um borð í fiskiskipum, koma öryggismálum reglubundið á dagskrá með rafrænni sjálfvirkni og færa öryggismál nær sjómönnum með Öldu.

Félag skipstjórnarmanna ákvað í síðasta mánuði að leggja til 1 milljón krónur í styrk til áframhaldandi þróunar á kerfinu. Fram kemur auk þess að þónokkrar útgerðir hafi lýst yfir vilja um að styrkja verkefnið fjárhagslega, svo hægt sé að ljúka við fyrstu útgáfu kerfisins. „Félag skipstjórnarmanna og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hvetja alla hagaðila í sjávarútvegi til að leggja sitt af mörkum og styðja við þetta frumkvöðlastarf í nútímavæðingu á öryggismálum fiskiskipa og sjómanna,” segir á síðunni.

Fram kemur að fimm útgerðir (Vísir, Síldarvinnslan, Skinney-Þinganes, Gjögur og Samherji), á sjötta tug skipstjórnenda og á fimmta hundrað sjómenn séu þátttakendur í notendaprófunum á Öldu, sem hófust í febrúar á þessu ári.S

Deila: