Seyðfirðingar mótmæltu fiskeldi

Deila:

Seyðfirðingar efndu í dag til samstöðufundar gegn áformum um fiskeldi í firðinum. Mótmælin fóru fram í miðbænum en skipuleggjendur mótmælanna furða sig á því að áformum um eldið sé haldið til streitu gegn vilja fjölda bæjarbúa. Þetta kemur fram á Austurfrétt.

„Við erum mjög einbeitt á móti þessu og skiljum ekki hvers vegna nokkurt fyrirtæki vill fara inn í samfélagið við slíkar kringumstæður. Einhvers staðar liggur fiskur undir steini og ég hef grun um að eitthvað gerist á verðbréfamarkaði þegar leyfið fæst,“ er haft eftir Þóru Guðmundsdóttur, sem er einn skipuleggjanda.

Í Austurfrétt er bent á að Ice Fish Farm hafi sótt um leyfi fyrir 10 þúsund tonnum af laxi í Seyðisfirði. Í vetur skrifaði ríflega helmingur bæjarbúa á kosningaaldri undir undirskriftarlista gegn áformunum. Skoðanakönnun hefur auk þess sýnt fram á 75% andstöðu bæjarbúa gegn eldinu.

Hápunkti mótmælanna var í dag náð þegar mótmælendur mynduðu stórt NEI með því að raða sér upp en dróni var notaður til að mynda skilaboðin.

Deila: