Áframhaldandi uppbygging á Kópaskeri

Deila:

Fiskeldi Austfjarða stefnir á að hefja framkvæmdir við næsta áfanga nýrrar eldisstöðvar fyrirtækisins á Kópaskeri strax á næsta ári. Búið er að reisa átta stór ker og fyrsta áfanga þar með lokið. Fram kemur í umfjöllun Fiskifrétta um málið að framleiðslugeta eldisins eigi að verða 8.800 tonn af laxaseiðum á ári, í 32 kerjum.

Seiðin sem flutt eru í stöðina koma úr Rifósi í Lóni. Þau eru á Kópaskeri alin frá 70 grömmum upp í 200 til 600 grömm. Þaðan eru þau flutt austur á firði í sjókvíar Fiskeldis Austfjarða á Austurlandi.

Fram kemur í fréttinni að í dag sé Rifós með 21 starfsmann. Þegar stöðin á Kópaskeri verði fullbyggð þurfi allt í allt um 30 starfsmenn.

Hjálmar Bogi Hafliðason, forseti sveitarstjórnar Norðurþings, fagnar uppbyggingunni og segir hana þegar hafa leitt til hækkunar fasteignaverðs á Kópaskeri.

Hann bendir á að bygging parhúss á Kópaskeri sé yfirstandandi. Íbúðarhús hefur ekki verið byggt á Kópaskeri frá árinu 1992.

Meðfylgjandi mynd er frá byggingu parhússins. Á myndinni eru Haukur Marinósson (í forgrunni), Stefán Haukur Grímsson (á gröfu) og Elvar Már Stefánsson (við gröfuna) auk þess sem það glittir í Eggert Marinósson, sem annast framkvæmdina. Haukur á myndina.

Deila: