Síldveiðin eins og góð veisla

Deila:

„Þessi veiði lítur afskaplega vel út. Þetta er þægilegur veiðiskapur og mjög stutt að fara. Hjá okkur eru fleiri dagar í landi en á sjó. Það má segja að þetta sé bara góð veisla,“ segir Hálfdan Hálfdánarson, skipstjóri á Berki NK á heimasíðu Síldarvinnslunnar. Eftir helgarfrí um liðna helgi hófst vinnsla á síld á mánudagskvöld þegar Beitir NK kom með 1.680 tonn að landi. Börkur NK kom svo með rúm 1.600 tonn að landi á þriðjudag.

Haft er eftir Hálfdáni að veiðiferðin hafi gengið afar vel. „Aflann fengum við í fjórum holum og var dregið í þrjá til þrjá og hálfan tíma. Það er síld að sjá á stóru svæði, en við vorum að veiða grunnt á Héraðsflóanum. Síldin er úti um allt þarna, það þarf bara að hitta á hana. Það er töluverð ferð á henni – hún kemur og fer. Megnið af aflanum, eða um 80%, er norsk – íslensk síld, en íslensk sumargotssíld er um 20%“ segir Hálfdan.

Deila: