Fyrsta sjávarútvegsfyrirtækið á landinu til að fá jafnlaunavottun

Deila:

Síldarvinnslan fór í lokaúttekt til að fá svonefnda jafnlaunavottun nú í desember. Úttektin var framkvæmd af BSI sem er löggilt skoðunarstofa. Í úttektinni fór fram mat á því hvort Síldarvinnslan uppfyllti kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012. Úttektin skilaði jákvæðri niðurstöðu og mun Síldarvinnslan í kjölfarið fá formlega jafnlaunavottun til staðfestingar á því að enginn óeðlilegur kynbundinn launamunur sé til staðar hjá fyrirtækinu. Síldarvinnslan er fyrsta sjávarútvegsfyrirtækið á landinu til að ljúka vottunarferlinu, en einungis 40 fyrirtæki á landinu hafa hlotið jafnlaunavottun.

Hákon Ernuson, starfsmannastjóri, segir að talsverð vinna felist í því að fara í gegnum vottunarferlið. „Við þurftum að fara í gagngera rýni á alla launastjórnun hjá fyrirtækinu og tryggja að til væru verklagsreglur um allt sem snýr að launamálunum. Við verðum að geta sýnt nákvæmlega hvað liggur til grundvallar ákvörðunum á sviði launamála. Síðan eru tekin raungögn úr launakerfinu og öll laun skoðuð og þau borin saman með kerfisbundnum hætti til að greina hvort einhversstaðar sé að finna óútskýrðan launamun. Niðurstaðan var sú að slíkan launamun væri ekki að finna og var það ánægjulegt. Allar verklagsreglur og launagreiningin þurftu síðan að fara í gegnum rýni hjá löggiltri skoðunarstofu sem staðfestir að þetta sé allt gert í samræmi við viðkomandi staðal. Vinna við þetta hefur staðið yfir í marga mánuði, en Sigurður Ólafsson hefur stýrt verkefninu. Þá veitti Capacent okkur góða aðstoð við verkefnið. Það hafa margir lagt hönd á plóginn við þessa vinnu og vinnunni verður ekki lokið við að fá vottunina. Við þurfum sífellt að vinna í því að bæta launastjórnunina og þurfum að framkvæma innri úttektir árlega. Og síðan þarf að fá löggilta skoðunarstofu til að staðfesta að allt sé gert samkvæmt bókinni,“ segir Hákon í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

 

Deila: