Leggur til 5.000 tonna kvóta á úthafsrækju

Deila:

Hafrannsóknastofnun ráðleggur að leyfðar verði veiðar á 5000 tonnum af úthafsrækju á fiskveiðiárinu 2017/2018. Ráðgjöf yfirstandandi fiskveiðiárs (2016/2017) var 4100 tonn.

Stofnvísitala úthafsrækju var svipuð og hún hefur verið frá árinu 2012 og yfir varúðarmörkum. Mikið var af þorski á öllu svæðinu, eða svipað og hefur verið frá árinu 2015. Vísitala veiðistofns hefur lítið breyst á árunum 2012 til 2017 fyrir utan árið 2015 þegar hún lækkaði og var sú lægsta frá upphafi mælinga. Vísitala veiðihlutfalls hækkaði frá 2006 til 2012. Vísitala veiðihlutfalls árin 2014-2016 var nærri markgildi.

Grunnur ráðgjafar fylgir forskrift Alþjóðahafrannsóknaráðsins fyrir stofna þar sem ekki er hægt að beita aldurs-aflagreiningu, en til eru vísitölur sem taldar eru gefa mynd af breytingum í stofnstærð. Vísitala veiðistofns og afli eru notuð til að reikna vísitölu veiðihlutfalls.

Ráðgjöf í úthafsrækju hefur verið byggð á ársgömlum vísitölum, þannig var ráðgjöfin 2016 byggð á vísitölu 2015. Í ár er ráðgjöfin birt seinna en byggir þá á vísitölu 2017.

Vísitala ungrækju hefur verið lág frá 2004 og var í sögulegu lágmarki árin 2015 og 2016. Stofnvísitalan hefur verið nokkuð stöðug frá árinu 2012. Stofn­mælingin bendir til að stofninn muni ekki stækka á næstu árum.

Veiðar á úthafsrækju hófust um miðjan áttunda áratug­inn. Helstu veiðisvæði eru norður af landinu. Helstu meðaflategundir eru þorskur og grálúða.

Magn þorsks í stofnmælingu úthafsrækju var mjög mikið á árunum 2015 til 2017. Einnig mældist mikið af þorski í stofnmælingu botnfiska að vori (SMB) og hausti (SMH). Því er líklegt að afrán á úthafsrækju hafi aukist mikið á undanförnum árum.

 

Deila: