Arnarlax bakhjarl handboltalandsliðanna

Deila:

Arnarlax er nýr bakhjarl íslenska landsliðsins í handbolta, að því er fram kemur í tilkynningu á vef Arnarlax, og verður til næstu þriggja ára. Þar segir að HM kvenna hefjist HM í næstu viku í Noregi, Svíþjóð og Danmörku og muni Arnarlax hafa frá og með því sitt vörumerki á baki allra keppnistreyja landsliða Íslands í handbolta. Í janúar fer svo fram EM í handbolta karla.

„Það er mikið fagnaðarefni fyrir HSÍ þegar við skrifum undir samstarfssamninga við nýja bakhjarla. Flestir bakhjarlar HSÍ í dag hafa verið í bakvarðasveit okkar í yfir áratugi, það er von okkar hjá HSÍ að samstarfið við Arnarlax verði farsælt og ánægjulegt“ er haft eftir Guðmundi B. Ólafssyni, formanni HSÍ.

„Við vitum að handbolti er stór hluti af íslensku íþróttalífi og við gætum ekki verið stoltari en að fá að taka þátt í þeirri vegferð sem HSÍ er á. Áfram Ísland!“ er haft eftir Birni Hembre, forstjóra Arnarlax.

Þessi ráðstöfun hefur ekki fallið í kramið á öllum vígstöðvum. Þannig fjölluðu fjölmiðlar í gær um að Guðmundur Þórður Guðmundsson, stangveiðimaður og fyrrverandi landsliðsþjálfari, lítur á málið sem hneyksli sem beri vott um stórkostlegan dómgreindarskort. Hann setti færslu á Facebook þar sem hann minnti á að Matvælastofnun hefði sektað fyrirtækið um 120 milljónir króna fyrir að hafa brotið gegn skyldu um að tilkynna strok á fiski. „Arnarlax sýndi þar fullkomið og vítavert aðgæsluleysi til skaða fyrir íslenska náttúru. Að þiggja peninga frá þessu fyrirtæki sem vill nýta sér íslenska landslið til að lappa upp á dapurlega ímynd sína er óskiljanlegt. Eitt get ég sagt að ég hefði aldrei samþykkt sem þjálfari landsliðsins á sínum tíma að bera slíka auglýsingu,“ sagði Guðmundur í færslunni.

 

Deila: