Átak í Ameríku um fullnýtingu fisks

Deila:

Fimmtán bandarísk sjávarútvegs- og fiskvinnslufyrirtæki við Vötnin miklu (Great Lakes) í Bandaríkjunum og Kanada hafa undirritað yfirlýsingu um að árið 2025 verði allur afli þeirra fullnýttur; engu hent. Vötnin miklu mynda stærsta ferskvatnskerfi í heimi og íbúar við vatnið eru um 34 milljónir. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Sjávarklasanum. 

Þar segir að yfirlýsingin sé afrakstur verkefnis sem nefnist „100% Great Lakes Fish” sem leitt sé af samtökum fylkisstjóra og forsætisráðherra  sem eigi land að Vötnunum miklu. Samtökin nefnast Great Lakes St. Lawrence Governors and Premiers (GSGP). „Verkefnið við Vötnin miklu er grundvallað á verkefni Sjávarklasans sem nú er unnið að á ýmsum stöðum í heiminum og nefnist „100% Fish”, að því er segir í tilkynningunni.

Íslenski sjávarklasinn hefur að sögn verið helsti ráðgjafi fylkjanna í þessu verkefni og notið fulltingis sérfræðinga Matís og tæknifyrirtækjanna Marel og Curio. „Á næstu tveim árum verður áfram unnið að því að liðsinna þeim sjávarútvegsfyrirtækjum, sem eru partur af þessu verkefni, og nýta m.a. til þess íslenska tækni og hugvit á þessu sviði.”

Deila: