Engin loðnuveiði

Deila:

Hafrannsóknastofnun mun ekki breyta fyrri ráðgjöf um engar loðnuveiðar á þessari vertíð eftir mælingar síðustu vikuna. Ástæða þess er að lítið mældist og sterkar líkur á því að loðna sé enn undir hafísnum norðvestur af Íslandi. Þetta kemur fram á vef Hafró.

„Þetta eru helstu niðurstöður mælinga sem gerðar voru af rannsóknarskipunum Bjarna Sæmundssyni og Árna Friðrikssyni ásamt loðnuveiðiskipunum Polar Ammassak og Ásgrími Halldórssyni á tímabilinu 16.-23. janúar. Út af Austfjörðum varð ekki vart við loðnu og einnig mældist lítið magn á norðaustur hluta svæðisins, en þetta eru þau svæði þar sem fremsta hluta loðnugöngunnar er jafnan að finna á þessum tíma (1. mynd). Mesti þéttleiki fullorðinnar loðnu var í námunda við hafísröndina á svæðinu út af Horni og austur að Kolbeinseyjarhrygg. Vestan við það svæði var aðallega að finna ókynþroska loðnu. Miðað við þessa dreifingu má ætla að ís hafi komið í veg fyrir að náðst hafi að dekka allt útbreiðslusvæði loðnunnar. Það magn sem mældist nú af fullorðinni loðnu er aðeins um fjórðungur þess sem mældist í haust.”

Af þessum ástæðum gerir Hafrannsóknastofnunin ráð fyrir því að fara aftur til mælinga í febrúar með von um að loðnan verði gengin undan ísnum eða ísinn hafi hopað. Nákvæmar dagsetningar um framhaldið hafa ekki verið ákveðnar.

Deila: