Gullver með ýsu og þorsk

Deila:

Ísfisktogarinn Gullver NS landaði 85 tonnum í heimahöfn á Seyðisfirði í gær, að því er segir á vef Síldarvinnslunnar. Aflinn var nánast eingöngu ýsa og þorskur.

Hjálmar Ólafur Bjarnason skipstjóri segir í fréttinni að þeir hafi mest verið að veiðum á Hvalbakshallinu og á Hvalbaksgrunni. Veiðar hafi gengið brösulega framan af en að úr því hafi ræst í restina. „Við fengum mjög gott skot í lok túrsins. Fiskurinn sem þarna fékkst er mjög góður og ætti að henta vel fyrir vinnsluna. Þorskurinn í Hvalbakshallinu var fullur af loðnu en við urðum hins vegar ekki varir við neinar loðnutorfur. Líklega er loðnan mjög dreifð á þessu svæði,“ hefur Síldarvinnslan eftir Hjálmari Ólafi.

Gullver hélt til veiða á ný að lokinni löndun í gær.

Deila: