Gullver fer í togararall

Deila:

Togararall, sem hefur farið fram árlega frá árinu 1985, er að hefjast. Togarar Síldarvinnslunnar, Gullver og Breki, taka þátt í rallinu ásamt hafrannsóknaskipunum Árna Friðrikssyni og Bjarna Sæmundssyni. Rallið hefur verið framkvæmt árlega frá árinu 1985.

Frá þessu er greint á vef Síldarvinnslunnar. Gullver lét úr höfn á mánudag. Á síðunni er rætt við skistjórann, Steinþór Háldánarson. „Okkar hlutverk er að toga á norðaustursvæðinu en það er frá Skjálfanda og austur um að Breiðdalsgrunni. Síðan munum við einnig toga á Þórsbankanum að færeysku lögsögunni. Þetta er gert í tveimur áföngum og má gera ráð fyrir viku eða tíu dögum í hvorn áfanga, en það fer töluvert eftir veðri. Ég vil taka það fram að ég hætti á sjónum fyrir þremur mánuðum en kallar eins og ég eru stundum fengnir í verkefni eins og þetta. Ég telst líklega hafa mjög góða rallreynslu en ég er búinn að fara í á milli 25 og 30 röll. Ég fór í eitt rall á Barða og eitt á Hjalteyri en oftast fór ég á Bjarti. Bjartur fór samtals 26 sinnum í rall og ég efast um að önnur skip hafi farið jafn oft og hann. Nú er Gullver að fara í fjórða rallið og ég hef tekið þátt í þeim öllum. Í rallinu eru 18 menn um borð, 13 í áhöfn og fimm frá Hafrannsóknastofnun. Samtals munum við taka 151 hol á norðaustursvæðinu í þessu ralli,“ segir Steinþór.

Deila: