Loðnu landað í Neskaupstað

Deila:

Síldarvinnslan hefur fengið tvö norsk loðnuskip til löndunar í þessum mánuði en loðnan er veidd í Barentshafinu. Þetta kemur fram á vef Síldarvinnslunnar. Þar segir að annað skipið hafi verið með 750 tonn en hitt 1.300.

Rætt er í fréttinni við Geir Sigurpál Hlöðversson, rekstrarstjóra fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Hann segir að hráefnið sé gott. „Þetta reyndist vera fínasta hráefni. Aflinn er vel kældur um borð í skipunum og því er hráefnið gott þrátt fyrir langa siglingu til Íslands. Barentshafsloðnan er hins vegar mun smærri en loðnan sem veiðist hér við land. Það gekk vel að flokka loðnuna. Flokkarnir voru annars vegar hængur, 35-45 stk. Í kílóinu, og hins vegar hrygna. Hrygnan fer til Asíu en hængurinn til Austur-Evrópu. Hængurinn er þegar seldur og verið að skipa honum út. Hrognafyllingin í seinni farminum sem kom til okkar var 16-17%, en nú eru skipin að melda 19-21% hrognafyllingu. Yfirleitt er hætt að frysta þegar hrognafyllingin er komin í 22% og þá er farið að huga að hrognaframleiðslu. Það verður varla framleitt mikið af hrognum núna enda nóg til frá síðustu vertíð,” er haft eftir honum.

Deila: