Ráðherra á meðal gesta sýningarinnar

Deila:

Bjarkey Olsen Gunnarssdóttir, nýr matvælaráðherra var á meðal gesta sjávarútvegssýningarinnar í Barcelona, sem nú er yfirstaðin. Vinnslustöðin greinir frá því að ráðherra hafi birst í sýningarbási fyrirtækisins. Björn Matthíasson, rekstrarstjóri VSV Seafood Iceland ehf segir á vef Vinnslustöðvarinnar að sölu- og markaðsfólk úr öllum heimshornum hafi verið á sýningunni.

„Við það að Leo Seafood í Eyjum og Hólmasker í Hafnarfirði urðu hluti af VSV-fjölskyldunni lá beint við að auka kynningu á ferskum og frosnum botnfiskafurðum VSV á sjávarútvegssýningum og í markaðsstarfinu yfirleitt. Við sjáum líka teikn á lofti sem lofa góðu fyrir spurn eftir makríl- og síldarafurðum. Sýningin í Barcelona var vel sótt og í heildina tekið var mikill áhugi á íslensku sjávarfangi vel merkjanlegur. Það eykur okkur bjartsýni.“

Sýningunni lauk í gær, 25. apríl en þetta er þrítugasta samkoman af þessu tagi í röð. Sýningin var lengi val haldin í Brussel en hefur verið í Barcelona síðustu þrjú ár.

Mörg íslensk fyrirtæki voru þátttakendur í sýningunni. 

Myndin er af vef VSV. Á henni eru Bjarkey Olsen matvælaráðherra, Albert Erluson, framkvæmdastjóri  Hólmaskers í Hafnarfirði til vinstri, og Björn Matthíasson, rekstrarstjóri VSV Seafood Iceland ehf.

Deila: