Ljúka vinnu við minningarreitinn í sumar

Deila:

Til stendur að ljúka framkvæmdum í tengslum við minningarreit á grunni gömlu fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað í sumar. Reiturinn er til að minnast þeirra sem látist hafa í störfum hjá fyrirtækinu. Þetta kemur fram á vef Síldarvinnslunnar.

Þar segir að efnt hafi verið til samkeppni um útfærslu á reitnum árið 2018. Tillaga Kristjáns Breiðfjörð Svavarssonar bar sigur úr býtum en tillaga Ólafíu Zoëga hlaut einnig verðlaun. Á grundvelli þessara tveggja tillagna sá Landmótun – landslagsarkitektar um hönnun á svæðinu sem minningareiturinn yrði gerður á.

Fram kemur að framkvæmdir hafi hafist vorið 2022 en Geir Sigurpáll Hlöðvarsson hafði með þeim umsjón. Reiturinn var vígður 25. ágúst það sumar, þegar fyrri áfanga verksins var lokið. „Þótti vel hafa tekist til við gerð reitsins en frá upphafi var ætlast til að hann yrði friðsæll og hlýlegur staður þar sem fólk gæti notið kyrrðar,” segir í fréttinni.

Þar segir enn fremur að framkvæmdir við göngustíg frá reitnum niður að lítilli bryggju, þar sem fólk getur notið þess að horfa yfir fjörðinn, hófust í fyrra. Til stendur að þeim ljúki í sumar.  „Litla bryggjan sem nú hefur verið smíðuð er á svipuðum stað og gamla löndunarbryggja fiskimjölsverksmiðjunnar var á. Það eiga örugglega margir eftir að njóta þess að ganga niður á hana og njóta kyrrðar og fegurðar í stað þess skarkala og iðandi athafnalífs sem einkenndi staðinn á fyrri tíð.”

Geir Páll Hlöðversson tók meðfylgjandi mynd.

Deila: