Miklar sveiflur í aflaverðmæti

Deila:

Miklar sveiflur voru í verðmæti landaðs afla eftir landshlutum í október síðastliðnum og skýrist það að einhverju leyti af 40% aukningu á uppsjávarafla miðað við sama mánuð árið áður. Aflaverðmæti á höfuðborgarsvæðinu í október 2016 var 33% lægra en í sama mánuði í fyrra, en jókst á hinn bóginn um 22,8% á Norðurlandi eystra. Uppsjávarfiskinum er fyrst og fremst landað á svæðinu frá Þórshöfn suður um til Vestmannaeyja. Aflaverðmæti á landinu öllu féll um 8%.

Engu að síður var aflaverðmætið mest á höfuðborgarsvæðinu eða 2,3 milljarðar, en var 3,4 milljarðar í sama mánuði árið 2015. Næst mest aflaverðmæti voru á Suðurnesjum, 2,2 milljarðar króna, sem er 4,3% vöxtur frá sama mánuði árið áður. Norðurland eystra er í þriðja sæti með 2 milljarða en árið 2015 var aflaverðmæti þar í október 1,6 milljarðar.

Á Austurland dróst aflaverðmæti saman um 15,7% og varð alls 1,1 milljarður króna. Verðmæti landaðs afla á Suðurlandi jókst um 17,4% og varð alls 1,1 milljarður. Næst kemur Norðurland vestra með verðmæti upp á 717 milljónir sem er samdráttur um 14,4%. Á Vestfjörðum var aflaverðmætið 645 milljónir, sem er fall um 19,2% og á Versturlandi var verðmæti minnst eða 569 milljónir króna, sem engu að síður er vöxtur um 8,6%

 

Deila: