Raunlækkun á afurðaverði um 27%

Deila:

Í tengslum við yfirstandandi kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna hafa áhrif gengisbreytinga og lækkandi verðs á fiskmörkuðum gjarnan komið til umræðu. Gengi krónunnar hefur hækkað mikið síðustu mánuði og virðist enn ekkert lát vera á þeirri þróun. Auk hinna óhagstæðu gengisbreytinga hefur afurðaverð farið lækkandi á helstu mörkuðum. Þetta er til umræðu á heimasíðu Síldarvinnslunnar en þar segir ennfremur svo:

„Þetta tvennt hefur valdið mörgum sjávarútvegsfyrirtækjum erfiðleikum og rýrt mjög kjör sjómanna. Til þess að útskýra hvað hér er um að ræða er birt meðfylgjandi tafla. Taflan sýnir framleiðslu og framleiðsluverðmæti frystitogarans Barða NK á árinu 2015 og til samanburðar framleiðsluverðmæti og afurðaverð á núverandi gengi og miðað við núverandi afurðaverð.

 

SVN Barði2015_til_2017-fit-550x134

Fram kemur að framleiðsla skipsins á árinu 2015 hafi verið 2.957 tonn en afli upp úr sjó var tæplega 5.000 tonn. Framleiðsluverðmætið var 1.653 milljónir króna. Ef aðeins er horft er til núverandi gengis skilar sama framleiðsla einungis 1.336 milljónum króna sem er lækkun um 19,2%. Fram kemur í töflunni að lækkunin er breytileg eftir tegundum og þeim mörkuðum sem selt er á. Ef einnig er tekið tillit til afurðaverðslækkunar verður breytingin enn meira afgerandi. Þá nema heildarverðmætin einungis 1.209 milljónum króna sem er lækkun um heil 26,84%. Þetta þýðir í reynd að verð á afurðunum hefur lækkað um 26,84% í íslenskum krónum frá 2015.

Að sjálfsögðu hefur þessi þróun neikvæð áhrif fyrir útgerð skipsins en hlutur skipverja lækkar einnig mikið. Sem dæmi má nefna að árshlutur háseta var 18,8 milljónir á árinu 2015 en verður einungis 13,8 milljónir miðað við núverandi gengi og afurðaverð. Árstekjur þeirra lækka því um 5 milljónir króna.“

 

Deila: