Hættur á grásleppu eftir 41 vertíð

Deila:

„Þetta var bara drullugott,“ segir trillukarlinn Valgarður Sigurðsson frá Raufarhöfn um grásleppuvertíðina sem nú er að baki. Valli, eins og hann er jafnan kallaður, gerði út frá Kópaskeri, eins og mörg undanfarin ár. Hann var einn þeirra sem lagði netin í byrjun mars, en eins og kunnugt er heimilaði ráðherra grásleppuveiðar frá 1. mars þetta árið. Með honum réri Daníel Valgarðsson, sonur hans.

Valli fór sína fyrstu alvöru grásleppuvertíð árið 1984, þá með Hans Alfreð Kristjánssyni heitnum, frá Sandvík á Melrakkasléttu. Þeir réru frá Leirhöfn. „Ég var þrjú eða fjögur vor með Alla en svo keypti ég mér bát. Ég hef ekki misst úr vertíð,“ segir Valli, sem er fæddur árið 1959. Vertíðirnar eru fyrir vikið 41 talsins.

Lét undan þrýstingi sonar síns

Þeir sem þekkja Valla vita að hann lýsti því yfir í fyrra að hann væri hættur, enda hafði hann þá að eigin sögn verið slæmur í skrokknum. Hann segir að heilsufarið hafi verið betra að undanförnu og hann hafi að lokum látið undan þrýstingi frá syni sínum um að taka eina vertíð enn. Óhætt er að segja að þeir feðgar hafi gert góða veiði. „Þetta var nálægt 59 tonnum,“ segir Valli aðspurður en þeir feðgar róa á Helgu Sæm ÞH-70.

Þegar þetta er skrifað eru þeir feðgar langaflahæstir þeirra sem byrjuðu snemma í mars en Valli bendir réttilega á að margir eigi eftir að veiða marga daga eða séu jafnvel ekki byrjaðir. Það breytir því hins vegar ekki að veiðin var góð. Viðbótin kom of seint Valli var á bryggjunni, nýbúinn að taka upp og ganga frá netum, þegar honum bárust fregnir af því að öðrum 15 dögum hefði verið bætt við vertíðina. Það hefði verið stórmál að leggja á nýjan leik.

„Eftir að hafa náð aðeins andanum ákvað ég að láta gott heita. Hásetinn var í aðra röndina ánægður með þá ákvörðun en ég fann að hann skammaðist sín ofurlítið fyrir þá afstöðu á heimleiðinni,“ segir hann og hlær en bætir við að það sé alvanalegt og eðlilegt að þeir sem sæki það stíft að fara á grásleppu geti verið fegnir þegar vertíðin er afstaðin.

Nánar er rætt við Valla í nýútkomnu tölublaði Ægis.

Deila: