Allt ákveðið í reglugerð nema nestið!

Deila:
Eðvald Smári Ragnarsson Djúpavogi

„Stærsti ágallinn við strandveiðikerfið er sá að það er alltof niðurnjörvað og enginn sveigjanleiki. Við þurfum að róa ákveðna daga vikunnar og getum ekkert hnikað til dögum út frá t.d. veðri, straumum eða öðru slíku, hámarksafli á dag er fastsettur og þannig má áfram telja. Það eina sem ekki er sagt fyrir um með reglugerð er hvernig nesti má hafa með sér á sjó,“ segir Eðvald Smári Ragnarsson, strandveiðimaður á Djúpavogi og eigandi Sómabátsins Orra SU-260.

Hann hefur stundað strandveiðarnar allar götur síðan kerfinu var komið á árið 2009 og segir þessa sumarvinnu bara gera manni sem kominn er yfir sjötugt gott þó vissulega taki þetta á.

Heilsubætandi sumarvinna

„Ég er heilsuhraustur og þakka það ekki síst því að stunda strandveiðarnar á sumrin. Þessi vinna fær dæluna til að ganga aðeins hraðar og maður hefur yfirleitt lagt af um nokkur kíló á tímabilinu. Þetta er heilsubætandi,“ segir Eðvald en hann er vélstjóri að mennt og hefur reynslu af því starfi á ýmsum stærri skipum; togurum,nótaskipum og fleirum.

Hann gerir samt ekki upp á milli starfanna í samanburði við smábátasjómennskuna. „Það er mjög ólíkt að vera t.d. vélstjóri á togara og róa á smábát. Allt hefur þetta sína kosti,“ bætir hann við.

Eðvald segir að það komi alltaf einhver fiðringur þegar nálgast upphaf strandveiðitímans á vorin. Huga þurfi að ýmsum hlutum í bátnum „því þetta þarf allt að vera í lagi og uppfylla kröfur. Maður vill hafa þetta í lagi,“ segir hann. „Strandveiðin er hörku vinna. Maður þarf að rífa sig upp um miðja nótt til að fara að undirbúa róðurinn og svo getur þetta verið mikið at þegar vel fiskast. Ég hef líka notið aðstoðar barnanna og þau hafa öll róið eitthvað með mér, dóttirin minnst en strákarnir þrír talsvert.“

Nauðsynlegt að festa dagafjöldann

Aðspurður segir Eðvald að gera mætti ýmsar breytingar á strandveiðikerfinu en sú nauðsynlegasta sé vitanlega sú að tryggja fasta 48 daga, 12 í hverjum mánuði. Þannig væri mönnum tryggt viðurværi af þessum veiðum yfir þetta fjögurra mánaða tímabil. „Mér finnst mikil ofstjórnun í kerfinu eins og það er byggt upp í dag og enginn sveigjanleiki. Við búum til dæmis við það hér að í kringum stórstreymi er á mörkunum að hægt sé að fiska á færin og við þær aðstæður væri gott að geta hnikað til veiðidögum. Svo vita það allir að veðrið hefur mikil áhrif fyrir okkur á litlu bátunum. Þannig gæti ég talið áfram atriði sem takmarka okkar möguleika.

Ég get engan veginn séð að það setji hér allt á hliðina í lífríkinu þó handfæraveiðar verði frjálsar því það takmarkast af sjálfu sér hversu miklu smábátarnir geta afkastað í veiðum,“ segir Eðvald og í beinu framhaldi berst talið að stöðvun strandveiðanna á líkt og verið hefur raunin síðustu þrjú sumur.

„Á okkar svæði er mesta fiskgengdin frá byrjun júlímánaðar og fram á haustið. Við gætum því vel hugsað okkur að hafa t.d. þann sveigjanleika að róa frekar í september en maímánuði, líkt og stundum hefur verið bent á. En það er auðvitað afleitt að strandveiðarnar séu stöðvaðar ár eftir ár og veiðitímabilið þannig stytt verulega. Þetta kemur hart niður á okkur á austursvæðinu þegar besti fiskurinn er að ganga á okkar veiðislóð. Ég hallast helst að því að stjórnvöld séu lafhrædd við að smábátasjómenn græði einhver ósköp á þessum strandveiðum ef þetta verði frjálsara kerfi. Að fenginni reynslu get ég alveg fullyrt að svo er ekki. Eins og þetta er í dag þá gerir maður ekki mikið meira en ná fyrir kostnaði þegar veiðitímabilið er stytt svona mikið,“ segir Eðvald ákveðið.

Stutt á miðin frá Djúpavogi

Eðvald hefur lengi átt smábát og róið í hinum ýmsu kerfum. „Það er á mörkunum að maður kunni skil á öllum þessum kerfum í gegnum tíðina og strandveiðin er bara ein útfærslan. Ég veit svo sem ekki hvort hægt væri að koma á einhverju kerfi sem allir smábátasjómenn væru sáttir með en fastur dagafjöldi og meiri sveigjanleiki yrði að minnsta kosti leið til að auka jafnræðið milli landsvæða. Aðstæðurnar á grunnslóðinni við landið eru svo breytilegar,“ segir hann.

Eðvald segir að það eigi sannarlega við að þeir fiski sem róa og hafa þurfi fyrir smábátasjómennskunni eins og öllum öðrum störfum. „Við búum vel hvað það varðar að það er frekar stutt á miðin, 15- 20 mílur. Við erum mest hér í kringum Papey og ég fer stundum vestur á Lónsbugt þegar er mikill straumur hér á heimamiðum eða ef ufsinn gefur sig þarna vestur frá,“ segir hann og reiknar með að 10-15 bátar rói frá Djúpavogi á strandveiðar í sumar.

„Strandveiðibátunum hefur aðeins farið fækkandi hjá okkur, einfaldlega vegna þess hvernig þessi veiðitími hefur verið styttur síðustu ár og afkoman versnað sem því nemur. Héðan var seldur bátur núna í vetur og hann fór vestur. Þetta er því miður þróunin núna og það er illu heilli verið að búa til ákveðinn ríg á milli landsvæða og etja fólki saman.“

Fyrirsjáanleiki mikilvægur

Eðvald segir að til lengri tíma litið skipti miklu máli að þróa strandveiðikerfið á þann hátt að fyrirsjáanleikinn aukist. Þetta sé atriði sem ekki aðeins snúi að honum og öðrum sem róa í dag heldur líka að þeim sem taka við. Strandveiðifólki framtíðarinnar. „Í þessu eins og öðrum atvinnurekstri þarf að halda tækjum við með tilheyrandi kostnaði. Þegar þriðjungurinn af veiðitímanum er tekinn af þá bregðast tekjurnar og þá geta menn þurft menn að leita á náðir lánastofnana sem geta verið tregar til þegar fyrirsjáanleikinn í strandveiðikerfinu er ekki meiri en raun ber vitni. Það sama gildir um nýliðunina og möguleika fólks á að kaupa sér báta til að gera út á strandveiðar. Aukinn fyrirsjáanleiki getur því hjálpað til við nýliðun í strandveiðunum og laðað ungt fólk í þessa útgerð,“ segir Eðvald Smári Ragnarsson.

Viðtalið birtist fyrst í Sóknarfæri 2 tbl. 2024.

Deila: