Áskoranir og tækifæri

Deila:

„Ég held að alveg megi segja að við höfum haldið sjó í sumar. Verð á þorski lækkaði svolítið í upphafi ársins, eins og venjulega þegar Norðmenn koma inn á markaðinn. Á heildina litið má segja að við höfum haldið okkar hlut. Það er margt sem hefur áhrif á eftirspurn og verð á fiski. Þættir eins og viðskiptastríð, verð á olíu og ríkisstyrkir í veiðum og vinnslu. Í þessu felast bæði áskoranir og tækifæri,“ segir Gunnar Tómasson, annar framkvæmdastjóra Þorbjarnar hf. í Grindavík.

Töpuðum góðum mörkuðum vegna verkfallsins

Gunnar Tómasson

„Mitt mat er að við höfum ekki enn náð vopnum okkar eftir verkfallið í fyrra. Við töpuðum mjög góðum mörkuðum, mjög góðum viðskiptavinum, sem í staðinn fóru í uppþídda fiskinn. Við höfum ekki náð þeim til baka nema að litlu leyti. Norðmennirnir hafa fyrir vikið náð miklu betri tökum á markaðnum og nýttu sér þann tíma, sem við vorum í verkfalli til að komast inn. Þeirra markaðssetning á „skrei“ sem er einfaldlega hrygningarþorskur, hefur virkað vel. Þeir auglýsa hann sem sérstaka vöru og fylgja því eftir með myndarlegum auglýsingum og kynningum. Það sem hefur aftur haldið okkur gangandi, er að það eru svo margar vinnslur farnar að skera í bita og vinna fiskinn  meira. Það hefur aukið fjölbreytni í framboði og kannski fjölgað kúnnunum líka.

Það er svo hin hliðin að við höfum orðið fyrir mikilli samkeppni frá þessum  vinnslum sem Evrópubandalagið hefur verið að styrkja uppbyggingu á, sem eru í Póllandi, Eystrasaltlöndunum og Holllandi. Þær hafa verið að kaupa mikið af frystu hráefni, þíða það upp og selja sem ferskt. Því er síðan dreift á stórmarkaðina, sem hafa verið í rosalegri herferð á birgjana, sem hafa orðið að taka á sig allar verðlækkanir til þess að stórmarkaðirnir sýni einhvern hagnað. Sú barátta er ekki bara í fiski, heldur öllum afurðum og vörum og þetta þekkja allir sem hafa verið í viðskiptum við þessa stórmarkaði. Þetta bitnar á framleiðslufyrirtækjunum, sérstaklega á landi eins og Íslandi, sem er með sterkan gjaldmiðil og stöðugt hækkandi kostnað innanlands. Ég veit þess vegna ekki alveg hvar við endum með okkar frumvinnslu,“ segir Gunnar.

Vinnslan í Evrópu styrkt af ESB

Gunnar segist ekki hafa tölur um hvort meira sé að fara utan af óunnum fiski, en honum sé sagt að það séu miklu fleiri viðskiptaaðilar nú en áður, sem séu að kaupa heilan fisk og selja til þessara vinnsla í Evrópu.  Svo heyrist það líka að þessar vinnslur í Evrópu, sem byggðar hafi verið upp með styrkjum frá Evrópubandalaginu, njóti lágra vaxta á lánum, en hafi engu að síður átt í erfiðleikum í sínum rekstri. Þær hafi því ekki verið að skila neinum hagnaði. Það gæti leitt til þess að þær myndu reyna að sækja  hærra verð og alla vega ekki láta bjóða sér frekari verðlækkanir.
Svo heyrist hljóð úr horni í Noregi, þess efnis að Norðmenn telji að þorskverð eigi eftir að hækka um 5 til 10% á næstunni. Það marki þeir aðallega af því að samdráttur er í kvóta í Barentshafinu. Þetta eigi við um ýsuna líka. Þá er  einnig samdráttur í þorskveiðum við Nýfundnaland og í Eystrasalti og Norðursjó og ekki sé þorskkvótinn við Færeyjar að aukast.

Hærra verð á makríl

„Ég ætla að vona að við endurheimtum góða stöðu okkar í þorskinum, en það sem gerði okkur svolítið erfitt fyrir líka í sumar, þó við höfum sótt einhverja hækkun, er það að Norðmenn dældu inn laxi á markaðina á á lágu verði, allt niður í 35% lækkun. Þeir þurftu að slátra miklu og buðu laxinn á afsláttarkjörum. Þetta dreifðist mjög víða og það bitnaði á verði og eftirspurn eftir öðrum fiski.

Makríllinn hefur hins vegar hækkað í verði. Frá því við byrjuðum að veiða hann í sumar og þangað til við hættum, hefur verðið á honum hækkað stöðugt. Gunnar segir að nýliðið kvótaár hafi bara komið ágætlega út veiðilega séð. Þeir hafi náð nánast öllum sínum kvóta. Þurfi aðeins að færa á milli ára helst í tegundum eins og löngu og keilu, sem ekkert sérstök spenna sé að ná í og komi mest sem meðafli. Við höfum líka misst aðeins niður kvóta í óhagkvæmum tegundum.

Viðskiptastríð, olíuverð og fleira

En það er margt fleira sem kemur við sögu í viðskiptum með fiskafurðir heldur en framboð og eftirspurn og þrýstingur stórmarkaða á framleiðendur. „Við vitum ekki ennþá hverjar afleiðingar viðskiptastríðs Bandaríkjanna og Kína verða. Hvort það bitni á okkur eða skapi tækifæri fyrir okkur. Maður heyrir fleiri tala um að í því felist tækifæri. Bandaríkin hafa reyndar líka hert innflutningsreglur á fiski, sem tengjast uppruna og sjálfbærni. Bandaríkjamenn telja sig geta stjórnað heiminum og vilja gera það í þessum málum líka. Þessu er þó  ekki beint gegn okkur.

Þá er það olíuverðið. Við sjáum hvernig það er að fara með flugfélögin. Því fylgir að olían fyrir skipin hækki,  en þó held ég að í þessari olíuverðshækkun felist mikil tækifæri. Við eigum viðskipti við lönd sem flytja út mikið af olíu og verð á henni skiptir þau miklu máli. Þar má nefna Nígeríu, sem vantaði gjaldeyristekjur þegar olíuverðið var lágt, og gat því illa greitt fyrir afurðir eins og þurrkaða hausa og hryggi.

Vegna þess hefur verð á þurrkuðum afurðum í Nígeríu heldur verið að hækka þó hægt sé Við héldum áfram að framleiða fyrir Nígeríu, þegar verðið var sem lægst og nú er það farið að standa undir sér.

Mega ekki skipta við Rússa

Við getum ekki tekið Rússland með í það dæmi, því við megum ekki skipta við þá. Það mega bara Færeyingar. Við þurfum að standa með ESB í viðskiptastríðinu við Rússa, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Ég held að við gjöldum það dýrara verði en nokkur önnur þjóð.  Sumir geta glaðst yfir að Þjóðverjar hafa nánast ekkert skaðast af þessum átökum.

Við gerðum samninga í vor við Ítali og Spánverja um söltuð flök og núna höfum við verið að afgreiða grimmt inn á þá. Nú hafa þeir verið að taka fiskinn til sín og gera greinilega ráð fyrir líflegri verslun fyrir jólin.

Óvissa um veiðigjöld

Ekki liggur fyrir enn hvað tekur við í álagningu veiðigjalda. Gjöldin núna eru miðað við afkomuna 2015, sem var miklu betri en afkoman er núna. Ef eitthvað breytist verður það ekki fyrr en eftir áramót, sem gjöldin kunna að lækka, verði notaður sami útreikningur og verið hefur og verður þá miðað við afkomuna 2016, sem var mun lakari en árið áður.

„Ef farið er yfir breytingarnar síðan 2015 hafa vinnulaun hækkað um nálægt 25%. Allar vísitölur hér innan lands hafa farið upp um nokkur prósent meðan verð á þorski upp úr sjó hefur lækkað um 20 til 25%, verð á ufsa hefur lækkað um rúm 40% og karfaverð hefur einnig lækkað mikið. Svo hefur gengi krónunnar hækkað um helling frá því 2015, sem þýðir mun færri krónur inn til fyrirtækjanna, þetta er þó að breytast nú síðustu vikurnar. Því er verulega farið að taka í hjá fyrirtækjum eins og þessu. Lausafjárstaðan er orðin bág hjá þessum fyrirtækjum í bolfiski. Við erum að borga um 500 milljónir í veiðigjöld fyrir fiskveiðiárið sem var að ljúka. Nýtt línuskip í dag kostar kannski um 1,5 milljarða. Því má segja að á þriggja ára fresti sé verið að tapa eins og einu nýju línuskipi.

Óvægin pólitík

Það er ekkert eðlilegt við þetta og endar með því að stjórnvöld ganga frá þessum fyrirtækjum. Þau geta aldrei lifað þetta af. Við erum að borga um 7% til 9%  af tekjunum í veiðigjöld. Það er svipað og við erum að borga fyrir olíuna, en uppsjávarfyrirtækin eru aðeins að borga 2 til 4% af tekjum í veiðigjöld. Það væri hægt að lifa við það. Það er því allt of mikill munur á því hve fyrirtækin innan sjávarútvegsins eru að borga í veiðigjöld. Það hefur verið þvílík veisla í fyrirtækjunum sem stunda veiðar og vinnslu á uppsjávarfiski meðan botnfiskfyrirtækin hafa rétt skrimt og þau eru að borga hæstu veiðileyfagjöldin. Þessir útreikninga hafa því ekkert með afkomu að gera. Önnur fyrirtæki á Íslandi sem nýta sameiginlegar auðlindir borga engin auðlindargjöld. Þetta er bara pólitík og hún mjög óvægin. Fyrirtækin sem hafa gengið mjög vel hafa vissulega verið að borga arð og það vex sumum í augum. Það eru yfirleitt fyrirtæki sem eru í uppsjávarfiski, en eru ekkert að borga meiri arð en gengur og gerist í öðrum fyrirtækjum í öðrum atvinnugreinum. Bolfiskfyrirtækin eru ekki að borga neinn arð. Engu að síður er allt miðað við þorsk, af honum er greitt mest. Þetta er í meira lagi ósanngjarnt,“ segir Gunnar Tómasson.

Kvóti af 46 skipum

Sjávarútvegsfyrirtækið Þorbjörn hf. í Grindavík var stofnað árið 1953 af fjórum sjómönnum og fjölskyldum þeirra.  Fyrstu árin var aðallega fengist við útgerð lítilla vertíðarbáta og vinnslu á fiskinum sem þeir báru að landi.  Í áranna rás hefur fyrirtækið sameinast öðrum fyrirtækjum og vaxið bæði á sjó og í landi.

Ef litið er til ársins 1984 þegar ákveðið var að taka upp fiskveiðistjórnunarkerfi þar sem leyfilegum afla var skipt á hvert skip og bát, þá má segja að kvóti Þorbjarnar hf. í dag sé kvóti af 46 skipum.  Í dag rekur fyrirtækið þrjú línuskip og tvo flakafrystitogara, en í vor fær fyrirtækið afhentan stóran frystitogara sem það hefur nýlega keypt frá Grænlandi.  Í landi eru starfræktar tvær fiskvinnslur í Grindavík og ein í Vogum.  Hjá fyrirtækinu starfa í dag um 300 manns, en ársverkin eru í kringum 270. Starfsmannafjöldinn skiptist þannig að á sjó eru 170 og í landi 130.  Þá á fyrirtækið hlut í Haustaki ehf. sem sérhæfir sig í þurrkun á beinum og hausum fyrir Afríkumarkað.

Viðtal þetta birtist fyrst í nýjasta tölublaði Ægis, sem helgað er aldarafmæli fullveldis Íslendinga. Blaðinu, sem er 172 síður að stærð,  hefur verið dreift til sjávarútvegsstaða um allt land, auk þess að vera í áskrift.

Myndir og texti Hjörtur Gíslason.

 

 

Deila: