Allt gert til að minnka togmótstöðu

Deila:

Ísfell er leiðandi fyrirtæki í sölu, þjónustu og hönnun á veiðarfærum. Í vöruþróunarvinnu fyrirtækisins er lögð rík áhersla á að vera í góðum samskiptum við birgja, útgerðir, sjómenn og viðskiptavini, til að heyra þeirra kröfur og væntingar. Þetta er gert með það að leiðarljósi að bæta vörur og þjónustu til viðskiptavina fyrirtækisins.

Ísfell M1771 makríltroll

Síðustu misseri hefur Ísfell þróað nýtt flottroll sem heitir „Ísfell M1771“ og fer fyrsta útgáfa af því í notkun á komandi makrílvertíð að sögn Birkis Agnarssonar veiðarfæratæknis í þjónustustöð Ísfells í Vestmannaeyjum. Framendi trollsins er fjögurra byrða svokallað „wide body“, en þá er trollopið meira lárétt en lóðrétt. Það er útbúið úr Dyneema köðlum með yfirfléttaðri kápu. Með því er hægt að grenna kaðlana og minnka togmótstöðu til mikilla muna en belgurinn er úr nylonneti eins og pokinn. Trollið lofar mjög góðu og eru allar opnunartölur eins og við var búist en búið er að reyna það í tilraunatanknum í Hirtshals í Danmörku.

M1771 trollið verður öllum líkindum léttara í drætti en gengur og gerist. „Það er þó ekki auðvelt á þessari stundu að segja hversu mikið léttara það verður í samanburði við önnur troll á markaðnum þar sem um nýjung er að ræða og mun tíminn leiða í ljós hvernig trollinu muni vegna á komandi makrílvertíð. Við höfum gert allt til þess að lágmarka togmótstöðuna, t.a.m. notað T90 í hluta belgsins og pokann en allt skiptir þetta miklu máli. Það eru því spennandi tímar framundan hjá okkur starfsmönnum Ísfells en fyrirtækið er að fara inn á erfiðan markað,“ segir Birkir og bætir við: „Við heyrum að það er brýn þörf fyrir alvöru samkeppni í þessum geira og þetta troll lofar mjög góðu.“

2024 rækjutroll

Á Húsavík er ein af þjónustustöðvum Ísfells á Norðurlandi og þar hefur verið unnið að því að endurbæta hönnun á „Ísfell-AngCos“ ásamt Lukku-rækjutrollinu og segir Kári Páll Jónasson netagerðarmaður að þetta séu nýjustu útfærslur af þessum vel heppnuðu trollum. AngCos rækjutrollið er með yfir 40 ára sögu að baki og nýjasta útgáfan „Ísfell-AngCos 2024“ hefur farið í gegnum tölvuhermun og tankprófanir þar sem hönnun var breytt til að fínstilla það fyrir betri opnun, bæði lóðrétt og lárétt.

„Nýtt HDPE netaefni býður upp á minna þvermál garnsins sem gerir það að verkum að við getum dregið úr togmótstöðunni og aflahlutfallið eykst. Í vetur höfum við selt rækjutroll í fjölmarga togara sem draga tvö til þrjú troll í einu,“ segir Kári.

Grænlenskir viðskiptavinir Ísfells hafa notast við Lukku-troll á heimamiðum sínum, ásamt því að AngCos veiðarfærin njóta vinsælda hjá útgerðum í Eystrasaltsríkjunum, Hollandi, Noregi til veiða í Barentshafinu og víðar. Auk þeirra eru íslensk skip að nota Lukku-trollið.

Double Dyform frá Bridon-Bekaert

Ásamt trollum er Ísfell umsvifamikið í togvírum og hefur verið umboðsaðili Bridon-Bekaert á Íslandi í áratugi. Síðastliðna mánuði hefur fyrsti íslenski togarinn prófað nýjustu togvírana frá Bridon-Bekaert, Double Dyform, með góðum árangri að sögn Grétars Björnssonar sem sér um víraþjónustu fyrirtækisins. „Þórunn Sveinsdóttir VE er með þessa togvíra um borð og nú erum við að fara að afhenda nýju Sigurbjörgu ÁR sömu togvíra.Skipið verður afhent Ísfélagið fljótlega og verður það með Double Dyform vír á öllum fjórum spilunum,“ segir Grétar.

„Double Dyform vírinn hefur meira brotþol og framúrskarandi slitþol, þannig að hann ætti að endast lengur. En þetta er bara byrjunin,“ bætir hann síðan við og segir að með meiri styrk sé hægt að minnka þvermálið, til dæmis úr 30 mm í 28 mm, þannig að það verður minni þyngd á tromlunni og minni togmótstaða.

Greinin birtist fyrst í nýju tölublaði Sóknarfæris.

Deila: