Síld fyrir austan land

Deila:

Síldar hefur orðið vart fyrir austan land. Sigurður Valgeir Jóhannesson, skipstjóri á Beiti NK, segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar að síldarryk hafi verið út af Norðfjarðarhorni í nótt þegar Beitir kom með makrílfarm til löndunar í Neskaupstað.

„Það er augljóslega komin einhver síld hingað en það hefur áður frést af síld fyrir norðan land. Við sáum greinilegt síldarryk síðustu 10 mílurnar áður en við komum að Norðfjarðarhorninu og þetta er fyrsta síldin sem við höfum séð þetta árið. Hún er komin hingað til okkar til að fá sér að borða en það hefur víða sést mikil áta. Til dæmis var Norðfjarðarhöfn full af átu síðast þegar við lönduðum makríl,” segir Sigurður á vefnum.

Deila: