Mörg handtök í Haustaki

Deila:

Þau eru mörg handtökin hjá starfsmönnum Haustaks á Reykjanesi. Á góðum degi setja þeir um 700 pakka af hausum í gám til útflutnings. Í hverjum pakka, sem er um 30 kíló, eru 150 til 220 þurrkaðir hausar. Það eru því ríflega 150.000 hausar í gámnum. Þeir eru að vinna úr um 65 tonnum af blautu hráefni á dag, hausum og hryggjum. Nokkuð mörg handtök við það.

„Markaðurinn í Nígeríu er orðinn svona þokkalega stöðugur. Hann er reyndar ekki kominn á þann stað sem við vorum á þegar best lét fyrir nokkrum árum. Þegar staðan er þannig finnst mér við geta unnið okkur upp. Verðið er kannski ekki heldur upp á marga fiska, en markaðurinn er farinn að taka við og salan orðin góð,“ segir Víkingur Þórir Víkingsson, framkvæmdastjóri Haustaks á Reykjanesi.

Víkingur Þórir Víkingur, framkvæmdastjóri Haustaks, segir að markaðir fyrir þurrkaða hausa í Nígeríu sé þokkalegur.

Háannatími á haustin

„Því má segja að jákvæð teikn séu á lofti. Nígeríumenn eru svolítið sérstakir í innflutningi matvæla og leggja mikla áherslu á eigin sjálfbærni, en þeir munu alltaf þurfa á þurrkuðu vörunni að halda. Framleiðslan undanfarið hefur verið minni sem slík á heildina litið. Það eru færri fyrirtæki í þessu nú en áður. Á haustin er háannatími í þurrkuninni fyrir jólin og páskana. Þá taka kaupendur meira magn í einu og fara svo í þorpin með hausana og hryggina til að gera sér dagamun. Í staðinn fyrir að taka einn pakka, eru menn kannski að kaupa 10 og taka með heim. Nú er farið að hægjast um í útflutningnum því hausarnir eru um sex vikur á leiðinni út og því jólavertíðinni að ljúka. Vara sem fer út eftir miðjan nóvember kemur á áfangastað eftir áramótin,“ segir Víkingur.

Efnahagsástandið ræður miklu um innflutninginn og þar ræður olían miklu. Sé olíuverð lágt, dregur úr innflutningi vegna gjaldeyrisskorts, en Nígería framleiðir mikið af olíu. Staðan í þeim efnum er þó ekkert sérlega góð að mati Víkings. Hann segir bein tengst þarna á milli og dýfan sem kom í markaðinn síðast hafi verið í beinu framhaldi af mikilli lækkun á olíuverði.

Byggist á góðu og fersku hráefni

„Fiskþurrkun er í dag mjög tæknivædd og vönduð framleiðsla sem byggist á fersku og góðu hráefni, sem skilar sér í markaðssetningunni. Góð vara verður aldrei til úr slöku hráefni. Það hefur orðið rosaleg breyting á þessari framleiðslu á síðustu áratugum. Þetta er ekki lengur einhver auka afurð og það síðasta sem unnið var í vinnslum. Nú er fiskurinn hausaður í Grindavík í dag, hausinn kemur ferskur og fínn til okkar og fer í þurrk daginn eftir. Ferlið við þurrkun, flokkun og pökkun tekur svo um þrjár vikur. Ferskara verður það ekki og það kemur fram á disknum.“

Mest af hausum frá Þorbirni og Vísi

Haustak er í eigu Vísis og Þorbjarnar í Grindavík og fær hausa og hryggi til verkunar hjá þeim, en einnig keypt af öðrum vinnslum. Þeir voru með Ísfisk á Akranesi í viðskiptum, sem reyndar hætti vinnslu í haust. Þegar staðan á hausamarkaðnum var sem best 2008 til 2015, voru frystir hausar teknir af frystitogurunum, en Haustak er ekki að kaupa hausa af frystitogurum í dag. „Við erum að reyna að stýra magninu inn á markaðinn, svo ekki myndist offramboð og verð lækki á ný. Þess vegna höfum við verið að keyra þetta rólega upp. Við erum líka að framleiða hryggi á Nígeríu. Við þurfum að geta boðið upp á ódýrara hráefni fyrir markaðinn til að liðka fyrir hausasölunni. Þetta selst þannig allt í bland, en einnig fer eitthvað af hryggjum til Kína. Haustak er búið að byggjast nokkuð þægilega upp og þetta er allt í föstum skorðum. Allt vinnsluferlið gengur mjög vel.“

Allir hausar og hryggir hjá Haustaki eru þurrkaðir inni en eitthvað er enn hengt upp, bæði hér á Íslandi og í Noregi. Besti tíminn til að þurrka hausa úti er upp úr áramótum og fram undir vor. Í rigningatíð verða hausar þurrkaðir úti alltaf slakari vara, enda getur tekið upp í fjóra mánuði að þurrka þá. En það er enn hefði fyrir útiþurrkuðum hausum í Nígeríu.

Og að lokum. Hvernig borða þeir hausana?

„Þeir búa til einskonar stöppu úr hausunum og hryggjunum og krydda  með alls konar kryddjurtum. Þeir borða matinn með guðsgöfflunum og meðlætið er „yam“, en það er jarðávöxtur ekki ólíkur kartöflu. Við borðum þetta í hvert skipti þegar við heimsækjum okkar viðskiptavini í Nígeríu og þetta er bara mjög fínt,“ segir Víkingur.

 

 

 

Deila: