Ólöglegar eða ósiðlegar uppsagnir!

Deila:

Uppsagnir hjá Hafrannsóknastofnun í nóvember voru ýmist ólöglegar eða ósiðlegar að mati fyrrum fjármála- og mannauðsstjóra stofnunarinnar. Með uppsögnunum hafi yfir 300 ára starfsreynslu og þekkingu verið kastað á glæ og lítið hafi farið fyrir hreinskilni, mannúð og nærgætni af hálfu stjórnenda stofnunarinnar. Frá þessu er greint á ruv.is

Tíu manns var sagt upp og fjórir sögðu sjálfir upp störfum í hagræðingaraðgerðum hjá Hafrannsóknastofnun í nóvember. Var þá haft eftir Sigurði Guðjónssyni, forstjóra stofnunarinnar, að tilefnið væri skipulagsbreytingar, að flytja ætti stofnunina í Hafnarfjörð og að það hafi kallað á ákveðna hagræðingu. Um leið var umhverfissvið Hafró lagt niður og verkefni þess færð á önnur svið.

Fréttastofa hefur undir höndum greinargerð sem Sólmundur Már Jónsson, fyrrum fjármálstjóri og síðar mannauðs- og rekstrarstjóri Hafró, sendi á núverandi og fyrrum starfsmenn í gærmorgun. Sjálfur sagði Sólmundur upp störfum áður en til uppsagna kom. Lýsir hann því í greinargerðinni að hann hafi ekki getað unnið lengur hjá Hafró vegna þess sem gerðist í aðdraganda uppsagnanna og samdi hann um starfslok tveimur dögum áður en til þeirra kom.

Svikin loforð ráðherra

Sólmundur segir sjávarútvegsráðherra bera ábyrgð á þeim niðurskurði sem leiddi til uppsagnanna þar sem loforð um fjárveitingar hafi verið svikin. Rekur hann að í ársbyrjun hafi staðan verið sú að hækka yrði fjárveitingar til Hafró eða draga saman rekstur vegna skertra framlaga. Í lok maí hafi verið tilkynnt að hækka ætti fjárveitingar til haf- og matvælarannsókna um 280 milljónir króna og reyndist mikil ánægja innan framkvæmdastjórnar Hafró með það. Síðar hafi komið í ljós að ráðherra ætli aðeins að láta Hafró fá 150 milljónir króna en halda eftir 50 milljónum í önnur verkefni. „Ábyrgð ráðherrans á niðurskurðinum nú er augljós,“ skrifar Sólmundur og bætir við að ráðherra hafi vitað af uppsögnunum og væntanlega samþykkt þær. Það var svo eftir að fjárlagafrumvarpið í september að gerð var hagræðingarkrafa upp á 84 milljónir króna.

Eindreginn vilji til uppsagna

Ábyrgðin á sjálfum uppsögnunum og framkvæmda þeirra hvílir hins vegar á forstjóranum, segir Sólmundur.  Lýsir greinargerðin eindregnum vilja forstjóra og fjármálastjóra að segja upp fólki í stað þess að skoða aðrar leiðir til hagræðingar. Í greinargerðinni segir:

„Á fundum framkvæmdastjórnar og með einstökum sviðsstjórum kom fram það sjónarmið hjá Sigvalda að menn ættu að „nota tækifærið og losa sig við starfsmenn“ og orðið „kalkvistir“ var notað um starfsmenn á fundi framkvæmdastjórnar. “

Segist Sólmundur hafa mótmælt nokkrum af þessum uppsögnum á þeim grundvelli að rökstuðning skorti og að þær væru ýmist ólöglegar eða ósiðlegar.

Yfir 300 ára reynslu og þekkingu kastað á glæ

Í greinargerðinni rekur Sólmundur nokkur dæmi af einstökum uppsögnum. Þannig hafi tveimur bókurum sem samtals voru í 160 prósent hlutfalli verið sagt upp störfum í nafni hagræðingar. Hins vegar hafi tveir bókarar verið ráðnir í þeirra stað, í samtals 200 prósent starfshlutfall. Annar þessara bókara sé nýútskrifaður viðskiptafræðingur með enga reynslu af bókhaldi. Segist Sólmundur hafa bent á að þetta væri brot á starfsmannalögum enda hafi engar skipulagsbreytingar átt sér stað í bókhaldi.

Í einu tilviki segir Sólmundur að starfsmanni verið sagt upp eftir fjögurra áratuga starf og hafði sá þegar samið um lækkað starfshlutfall og töku lífeyris í maí. Starfsmanni með skerta starfsgetu var sagt upp og svo virðist sem eina skýring á uppsögn eins stjórnanda stofnunarinnar hafi verið sú að maka hans var einnig sagt upp störfum. „Með uppsögnum er yfir 300 ára starfsreynslu og vísindaþekkingu kastað á glæ. Þekking og leiðbeiningar á sviði mannauðsmála er hunsað. Samvinna við sviðsstjóra og framkvæmdastjórn var lítil sem engin og alls engin gagnvart starfsfólki,“ skrifar Sólmundur.

Óttast að umhverfisrannsóknir sæti afgangi

Loks er lýst miklum áhyggjum af niðurlagningu umhverfissviðs. Ekki bara sé það í mótsögn um stefnum ríkisstjórnarinnar um að efla skuli hafrannsóknir heldur sé einnig hætta á að umhverfisrannsóknir verði látnar sæta afgangi. „Hver verða örlög umhverfisrannsókna þegar þær þurfa að berjast um skipatíma, tækjabúnað og mannafla innan fiski- og nýtingasviðanna á stofnuninni? Hætta er á að stofnmatsrannsóknir muni hafa enn meiri forgang en áður á kostnað umhverfisrannsókna,“ skrifar Sólmundur.

 

Deila: