Blængur með farm upp á 325 milljónir

Deila:

Frystitogarinn Blængur NK kom til löndunar í Neskaupstað á þriðjudag að aflokinni 28 daga veiðiferð en verið var að veiðum í 26 daga. Afli skipsins var 715 tonn upp úr sjó og kom það að landi með 20.400 kassa af frystum fiski.

Frá þessu segir á vef Síldarvinnslunnar. Fram kemur að verðmæti aflans hlaupi á 325 milljónum króna.

Fram kemur að aflinn hafi verið blandaður, mest af ufsa og ýsu en síðan töluvert af þorski og grálúðu. Rætt er í fréttinni við Sigurð Hörð Kristjánsson skipstjóra.

„Við vorum allan túrinn austur af landinu í þokkalegasta veðri. Reyndum við grálúðu fyrst út af Austfjörðum en síðan var haldið í Berufjarðarál, á Stokksnesgrunn, Papagrunn og Mýragrunn. Áhersla var lögð á að veiða ýsu og ufsa. Erfiðlega hefur gengið að veiða ufsa alllengi en í þessum túr var nudd í ufsanum allan tímann. Túrinn gekk vel enda gott að vera nánast alltaf á sama stað við veiðarnar. Vinnslan um borð gekk eins og í sögu enda virkilega góður mannskapur á skipinu. Það hefur verið góð ýsugengd og við höfum fengið að veiða hana en hins vegar hefur verið minni veiði í grálúðunni en oft áður. Það er mikil ásókn í grálúðuna og það hefur sín áhrif. Skipið heldur til veiða á ný í kvöld og það verður nægum verkefnum að sinna. Það verður síðasti túr þessa kvótaárs,” segir Sigurður Hörður.

Deila: