Jóhanna fær nýtt hlutverk

Deila:

Fiskiskipið, sem síðast hét Jóhanna Gísladóttir og var gert út á línu frá Grindavík, hefur nú hefur nú fengið nýtt hlutverk og nýja heimahöfn. Nú ber báturinn nafnið Jóhanna BA 107 og verður notað sem þjónustuskip við laxeldi vestur á fjörðum. Það er fyrirtækið Skeggi, sem hefur keypt skipið en það er í eigu athafnamannsins Jóns Þórðarsonar á Bíldudal.

Vísir hf. í Grindavík gerði skipið út á línu þar til á síðasta ári, þegar togari með sama nafni leysti Jóhönnu af. Áður en Vísir keypti skipið hét það Guðrún Þorkelsdóttir SU og var gert út á loðnu. Upphaflega hét skipið Helga Guðmundsdóttir BA og var gert út frá Patreksfirði. Það var smíðað á Akranesi 1969, var lengd 1974 og yfirbyggt 1977.

Jón Þórðarson

Jón Þórðarson segir skipið stórt og gott og líklega henta vel sem þjónustuskip fyrir fiskeldið. Helstu verkefnin verði dráttur á eldishringjum milli eldissvæða og fjarða og flutningur á olíu út í fóðurpramma fyrir Arnarlax og Arctic Fish. Það sé allt orðið svo stórt í laxeldinu og sem dæmi um það megi taka að eldishringirnir séu 67 metrar í þvermál, en skipið sé 56 metra langt og þyki það nokkuð stórt. Þá megi nefna að fóðurprammarnir stækki stöðugt. Þeir fyrstu hafi verið 360 tonn, næstu 650 tonn og væntanlegir séu fóðurprammar sem verði 960 tonn.

Þá er flutningur hrognkelsaseiða frá Njarðvík vestur eitt af verkefnunum, en seiðin er notuð til að éta laxalús af laxinum. Seiðin koma frá Benchmark Genetics Iceland í Höfnum og frá Hafrannsóknastofnun í Grindavík. Átta tankar verða í lestinni, 10 tonn hver til að flytja seiðin.

Loks er fyrirhuguð strandlengjuhreinsun í Dýrafirði, Arnarfirði, Tálknafirði og Patreksfirði. Jóhanna mun þá sigla meðfram ströndinni með léttabát, sem sendur verði frá skipinu til að sækja rusl sem kann að sjást. Jón segir að alltaf geti eitthvað losnað frá kvíum og rekið á fjörur í nágrenninu. Með strandlengjuhreinsuninni verði kannað í hve miklum mæli þetta sé og meta hve oft þurfi að hreinsa fjörurnar. Eldismenn vilji ganga vel um og ekki skilja eftir sig rusl í fjörunum.

Deila: