Haustbragur á veiðunum

Deila:

Vestmannaeyjaskipin Bergur VE og Vestmannaey VE lönduðu bæði í heimahöfn í gær. Bergur kom til hafnar í fyrrakvöld með fullfermi og Vestmannaey kom í kjölfarið og landaði síðdegis. Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi, segir í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar að veiðiferðin hafi gengið vel.

„Það gekk ágætlega að fiska og það var blíða allan tímann sem við vorum að veiðum. Það var síðan siglt til Eyja í gær í norðaustanfræsingi. Við veiddum mest á Lónsbugtinni og var aflinn blandaður, mest ufsi, þorskur, ýsa og koli. Það var lítið um karfa í þessum túr. Við höfum nægum verkefnum að sinna til loka kvótaársins og síðan hefst nýtt um mánaðamótin. Það verður haldið til veiða á ný síðar í dag,“ sagði Jón í gær.

Haft var samband við Egil Guðna Guðnason, skipstjóra á Vestmannaey, í gærmorgun en þá var skipið að veiðum á Víkinni. „Við erum að ljúka örstuttum túr en við lönduðum í Eyjum sl. sunnudag. Í túrnum höfum við veitt á Mýragrunni, á Ingólfshöfðanum og nú erum við á Víkinni. Það er kominn dálítill haustbragur á veiðarnar á þessum slóðum og menn þurfa að hafa heldur meira fyrir því að ná afla en verið hefur. Það er í reyndinni búin að vera samfelld veisla frá því í mars en henni hlaut að ljúka einhvern tímann. Annars er engin ástæða til að kvarta og hér um borð eru menn afar brattir,“ segir Egill Guðni.
Bergur VE kemur til löndunar í Eyjum. Ljósm. Guðmundur Alfreðsson

 

 

Deila: