Vilhelm með mestar heimildir í íslensku síldinni

Deila:

Kvóti á íslensku síldinni í ár er 70.620 tonn eftir færslu á 7.933 tonna heimildum frá nýliðnu fiskveiðiári. Í fyrra var kvótinn 79.096 tonn og aflinn 70.805 tonn. Það er mesti síldarafli frá fiskveiðiárinu 2014/2015 er 94.975 tonn veiddust.

„Síldarveiðar á fiskveiðiárinu 2021/2022 voru stundaðar fyrir vestan og austan af Íslandi. Heildaraflinn var 70.084 tonn, 51.932 tonn veiddust vestan við landið, aðallega í september–desember, og 18 152 tonn austan við landið í júní–október sem meðafli í veiðum á norsk-íslenskri síld og makríl. Allur afli á vertíðinni var veiddur í flotvörpu.

Mat á sýkingarhlutfalli sumargotssíldar af völdum frumdýrsins Ichthyophonus í aflasýnum vetrarins sýna álíka hátt hlutfall og síðasta vetur en tiltölulega lítið nýsmit,“ segir í ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar fyrir nýhafið fiskveiðiár.

Mestan kvóta á þessu ári hefur Vilhelm Þorsteinsson EA, 9.709 tonn. Næstu skip eru Jóna Eðvalds SF með 8.602 tonn. Hákon EA með 7.434 tonn, Beitir NK með 5.836 tonn og Börkur NK með 5.489 tonn. 16 skip hafa fengið úthlutað heimildum.

Á síðasta ári var Hákon EA aflahæstu á íslensku síldinni með 7.467 tonn. Vilhelm Þorsteinsson EA var með 7.413 tonn og Ásgrímur Halldórsson SF með 5.713 tonn.

 

Deila: