Lyfjakistukostnaður stendur í smábátaeigendum

Deila:

Frá því er sagt á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda að miklar fyrirspurnir hafi borist að undanförnu til skrifstofu sambandsins vegna kostnaðar við lyfjakistur í smábátum. Þetta gerist í kjölfar nýrrar reglugerðar sem birt var í október síðastliðnum en kröfur sem þar birtast um innihald í lyfjakistu D, sem skal vera um borð í smábátum, þýða verulega aukinn kostnað við lyf- og sjúkragögn sem krafa er gerð um. Segir í umfjölluninni að mörgum smábátaeigendum hafi brugðið við lestur reglugerðarinnar.
„Talsvert áður hafði þessi fyrirhugaða breyting verið kynnt í Siglingaráði og samkvæmt henni átti breytingin að vera til einföldunar og kostnaðarminnkunar. Annað kom á daginn,“ segir í fréttinni en jafnframt að LS hafi að undanförnu unnið að því að knýja fram breytingar á reglugerðinni hvað þetta varðar. Á fundi Siglingaráðs í gær hafi síðan verið upplýst að að breytingar hafi verið gerðar á þremur liðum og þannig er dregið úr kröfum um innihald lyfjakistunnar í smábátum og kostnaður lækkar sem því nemur.

„Þessar breytingar lækka kostnaðinn talsvert en jafnframt er það svo að kistan er dýrust á fyrsta ári þessara breytinga vegna hluta sem ekki þarf að endurnýja eins og SAM spelka, mótanleg og fleira. Þá hafa lyf almennt hækkað eins og flest annað. Félagsmenn eru hvattir til að kynna sér reglugerðina og fylgjast með því sem apótekin og eða skoðunarstöðvarnar gera,“ segir í fréttinni.

 

Deila: