Ekkert lát á bullandi loðnuveiði

Deila:

Loðnuveiðar ganga eins og í sögu ef marka má frétt á vef Síldarvinnslunnar. Þar er greint frá því að mörg skip hafi verið að veiðum við Reykjanes í gær en einnig austan Vestmannaeyja. Í morgun hafi verið byrjað að kasta við Reykjanes. Rætt er við Hjörvar Hjálmarsson, skipstjóra á Berki NK:

„Við fengum gott kast í morgun um 10 mílur vestur af Hafnarleirnum og fylltum. Um borð eru komin rúm 2.900 tonn. Þennan afla fengum við í sex köstum. Hér eru öll skip að vinna og það er mikið að sjá af loðnu. Framhaldið lítur líka vel út. Það er nýtt efni að koma á þessar slóðir og svo eru einhverjar fréttir af vestangöngu. Það er sagt að það sé komin loðna í Víkurálinn. Veðurspáin framundan er hagstæð og það eykur líkurnar á því að kvótinn náist. Það er því full ástæða til bjartsýni. Þessi vertíð hefur verið einstaklega góð, mikið að sjá af loðnu og veðrið hagstætt. Þetta er miklu betri vertíð í alla staði en vertíðin í fyrra þó kvótinn sé minni. Það virðist einfaldlega mun meiri loðna vera á ferðinni núna,“ er haft eftir honum.

Fram kemur að hrognavinnsla í Neskaupsstað gangi vel. Verið sé að vinna hrogn úr Beiti NK en síðan verði unnið úr Vilhelm Þorsteinssyni EA og Hákoni EA. Þá kemur fram að Bjarni Ólafsson AK sé á landleið með fullfermi en Barði NK sé nýkominn á miðin.

Deila: