Samdráttur í heildarafla á milli ára

Deila:

Heildarafli íslenskra skipa árið 2023 var 1.375 þúsund tonn sem er 3% minni afli en landað var árið 2022. Aflaverðmæti við fyrstu sölu jókst um 1% á milli ára og nam rúmum 197 milljörðum króna árið 2023. Frá þessu er greint í tilkynningu á vef Hagstofunnar.

Þar er rakið að alls hafi veiðst 402 þúsund tonn af botnfiski sem sé 7% minna en árið 2022.

„Á sama tíma dróst aflaverðmæti botnfiskaflans saman um 7%, úr 136 milljörðum króna í 126 milljarða króna. Af botnfiski var þorskaflinn alls 220 þúsund tonn árið 2023 og aflaverðmæti hans við fyrstu sölu nam tæplega 81 milljarði króna,” segir í fréttinni.

Afli uppsjávartegunda var rúm 946 þúsund tonn árið 2023 sem er um 1% minni afli en árið 2022. Af uppsjávarafla veiddist mest af loðnu, tæp 326 þúsund tonn og tæp 293 þúsund tonn af kolmunna. Aflaverðmæti uppsjávaraflans jókst um 22% frá fyrra ári og var 58 milljarðar króna sem skiptist nokkuð jafnt á milli kolmunna, loðnu, makríls og síldar.

Af flatfiski veiddust tæp 21 þúsund tonn árið 2023 að verðmæti 12 milljarða króna. Löndun skelfiska og krabbadýra dróst saman um 5% og var tæplega 5,8 þúsund tonn að verðmæti 1,2 milljarða króna.

 

Deila: