Síldarvinnslan lokar á Seyðisfirði

Deila:

Síldarvinnslan stefnir að því að loka bolfisksvinnslu fyrirtækisins á Seyðisfirði þann 30. nóvember. Við það missa 30 af 33 starfsmönnum vinnslunnar störfin sín. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Þar segir að rekstrarumhverfi bolfiskvinnslunnar hafi breyst hratt á undanförnum árum og kostnaðarliðir hækkað umtalsvert. Auk þess sé fjármögnun dýrari og þorskheimildir dregist saman. Loks sé vinnslan sjálf komin til ára sinna og mikil þörf á framkvæmdum. „Sá kostnaður hlypi á hundruðum milljóna króna og ljóst að jafn lítil starfseining stæði ekki undir slíku,“ segir í tilkynningunni.

Fram kemur að fyrirtækið hafi nýlega fjárfest í öflugum fiskvinnsluhúsum í Grindavík, til að mæta kröfum um aukna sjálfvirkni, betri nýtingu afurða og auka sveigjanleika.

Einnig kemur fram í tilkynningunni að fyrirtækið vilji vinna með heimamönnum með það fyrir augum að ráðast í mótvægisaðgerðir sem styrkt gætu Seyðisfjörð til lengri tíma. Þar eru tækifæri og fjárfestingar í atvinnuuppbyggingu nefnd.

Fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar verður áfram rekin á Seyðisfirði.

 

Deila: