Hampiðjan boðar byltingarkenndar nýjungar

Deila:

Íslenska sjávarútvegssýningin IceFish 2024 verður haldin í Fífunni í Kópavogi dagana 18.-20. september. Hampiðjan verður þar að venju með áberandi bás þar sem fjórar nýjungar verða kynntar.

Fyrst ber að nefna höfuðlínukapalsvindu, sem er sérstaklega hönnuð fyrir DynIce Optical Data-ljósleiðarakapalinn. Vindan, sem var þróuð í samstarfi við hollenskan sérfræðing í dráttarspilum og smíðuð af Naust Marine á Spáni. Tromlan er með dráttarspili sem heldur kapalinum stöðugum með um 800 kg átaksjafnvægi, sem kemur í veg fyrir að kapallinn klemmist eða brotni. Einnig er armur á tromlunni sem raðar kaplinum inn á tromluna með mikilli nákvæmni. Þessi búnaður er ætlaður til fiskveiða og annarra geira sem krefjast gagnaflutnings af miklu dýpi, og mun gera veiðar framtíðarinnar nákvæmari og árangursríkari, að því er fram kemur í tilkynningu.

Í öðru lagi mun Dr. Ludvig Ahm Krag, sérfræðingur í fiskveiðitækni við Danmarks Tekniske Universitet (DTU), halda fyrirlestur dagana 18. og 19. september kl. 14:00 á bás Hampiðjunnar. Hann mun kynna búnað sem nýtir gervigreind til að greina fisktegundir og stærðir í rauntíma, með hjálp ljósleiðarakapalsvindunnar frá Hampiðjunni.

Þriðja nýjungin er ný gerð af rockhopperlengju, byggð á plasthálfhringjum í stað gúmmíhringja. Lengjan var þróuð af Mørenot Fishery, dótturfyrirtæki Hampiðjunnar, og er í einkaleyfisferli. Þessi nýja lengja hefur minnkaða togmótstöðu og eykur veiði, en er einnig umhverfisvænni og lækkar kolefnissporið.

Í fjórða lagi verður kynnt grennra og sterkara Helix Robus-flottrollstóg, gert úr ofurefni sem eykur toghraða og dregur úr togmótstöðu, sem eykur afköst við veiðar á verðmætari fiski eins og makríl.

Gestir IceFish 2024 geta kynnt sér þessar nýjungar og fleiri vörur frá Hampiðjunni á bás D-50, sem verður að sögn Hjörts Erlendssonar, forstjóra Hampiðjunnar, frábær vettvangur til að hitta viðskiptavini og fagfólk í greininni.

Deila: